Innlent

Ber við vanþekkingu og fákunnáttu

Vanþekking og fákunnátta sjávarútvegsráðherra á veiðireglum leiðir líklega til þess að hann á yfir höfði sér kæru fyrir ólöglegar lundaveiðar fyrr í sumar. Ráðherra segir leiðinlegt að hann hafi ekki farið að reglum og hyggst skýra mál sitt fyrir Umhverfisstofnun.

Fréttablaðið birti í fyrradag frétt um árlega lundaveiðiferð Einars K. Guðfinnssonar sjávarútvegsráðherra og félaga út í Grímsey á Steingrímsfirði. Eftir ábendingar fóru starfsmenn veiðistjórnunarsviðs Umhverfisstofnunar að grennslast fyrir um það hvort ráðherra hefði gilt veiðikort, en þess er þörf við allar veiðar á villtum dýrum öðrum en rottum, músum og minkum.

Í ljós kom að ráðherra og nokkrir félaga hans voru ekki með veiðikort. Einar K. Guðfinnsson segir það helgast af því að hann hafi ekki vitað að það þyrfti að hafa veiðikort til lundaveiða og honum hefði aldrei verið bent á það.

Ráðherra segist hafa veitt nokkra tugi lunda í ferðinni en veiðarnar hafi hann alla tíð stundað án veiðikorts. Brjóti menn gegn reglugerð um veiðikort getur það varðað sektum, varðhaldi eða fangelsi og þá getur ríkissjóður gert veiðifangið og veiðitækin upptæk.

Sigurður Þór Guðleifsson, lögmaður Umhverfisstofnunar, segir að ráðherra og félögum hans hafi verið sent bréf þar sem óskað er skýringa á athæfinu. Framhald málsins ráðist af svörum þeirra.

Um yfirvofandi ákæru segir sjávarútvegsráðherra að hann muni svara Umhverfisstofnun en meira geti hann ekki gert. Honum þyki leiðinilegt að hafa ekki fylgt reglum um veiðikort en hann hafi ekki vitað betur.

Síminn hefur verið rauðglóandi hjá Umhverfisstofnun í dag eftir að fréttir bárust af ólöglegum veiðum ráðherrans og hafa flestir verið að sækja um veiðikort. Sjálfur segist ráðherra vonast til að komast aftur til veiða á næsta ári en þá með gild plögg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×