Karlmaður á þrítugsaldri réðst inn á skrifstofur Bónusvídeós í Hafnarfirði í dag, barði tvær konur og reyndi að ræna töskum með peningum í. Hann var yfirbugaður af vegfarendum eftir að hafa stokkið út um glugga í meira en fjögurra metra hæð.
Maðurinn, sem virðist hafa þekkt eitthvað til, fór inn um dyrnar sem við sjáum hér og beinustu leið upp stiga sem liggur inn á skrifstofurnar á annarri hæð. Fyrir utan beið félagi hans á bíl.
Þegar maðurinn kom inn á skrifstofurnar laus upp úr klukkan eitt voru þar tvær konur að störfum, sem vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið þegar maðurinn réðist á þær og kýldi í jörðina.
Að því loknu tók hann töskur með peningum í, notaðist við hamar til að brjóta stóra rúðu og henti ránsfengnum þar út.
Sjálfur stökk maðurinn svo út um gluggann, beinustu leið á eftir fengnum. Nokkrir vaskir vegfarendur sem áttu leið hjá náðu að elta manninn uppi og halda honum þar til lögregla kom á vettvang.
Félagi hans sem beið á bílnum fyrir utan brunaði strax í burtu. Lögreglan leitar hans enn og ekki liggur fyrir hvort hann náði að hafa eitthvað með sér.
Konurnar tvær sem voru að vinna á skrifstofunni eru ekki alvarlega slasaðar, en voru þó fluttar á slysadeild eftir ránið. Þær voru ekki fáanlegar í viðtal skömmu eftir hamaganginn, enda skiljanlega mikið brugðið við þennan óvænta atburð.
