Almannavarnir hafa sett upp nokkur dæmi í áhættugreingu ef stór slys verða á höfuðborgarsvæðinu. Þar er skipulagt hvernig standa skuli að meiriháttar slysum. Í einu dæminu hefur verið sett upp stórt kórgasslys á Kringlumýrarbraut við Bústaðaveg í kjölfar bílveltu flutningabíls. Á þeim stað er stutt í fjölmennar íbúðabyggðir, skóla, spítala og aðra vinnustaði. Þar er gert ráð fyrir að rýma þyrfti í 3000 metra radíus frá slysinu miðað við þær veðuraðstæður sem voru gefnar. Slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins segir aðstæður skipta miklu máli þegar um bensínbíll veltur eins og gerðist í Ljósavatnsskarði í gær.
Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins, segir að mörgu að huga, eins og í gær mátti sjá hversu langt slökkvibílarnir voru frá slysstað en alls ekki má keyra inn í bensínmengunarský vegna sprengihættu. Fara má nær ef um díselolíu er að ræða. Í Hringrásarbrunanum árið 2004 var stærsta rýming í langan tíma og ekki útilokað að bensínbíll gæti skapað svipaðar aðstæður.
Slökkviliðið vinnur með borgaryfirvöldum og fleirum að því skoða kosti og galla á staðsetningu olíubirgðastöðvarinnar í Örfirisey og hvort hún væri betur sett annarsstaðar. Jón Viðar bendir hins vegar á að á meðan borgarbúar krefast þess að hafa bensínstöðvar á næsta götuhorni þurfi alltaf að flytja bensínið um göturnar og því fylgi áhætta.