Ráðherrar heilbrigðis og félagsmála skrifuðu undir samkomulag við samtökin Nýja leið í dag um að styrkja nýstárlegt meðferðarstarf fyrir ungt fólk með áhættu og geðraskanir um samtals sextán milljónir á tveimur árum
Verkefnið kallast lífslist og byggir á erlendri fyrirmynd, Project self discovery and natural highs, og hugmyndum bandaríska sálfræðingsins Harvey Milkman sem leggur áherslu á að unglingar fái annan valkost þegar þeir láta af áhættusamri hegðun. Það byggist á listnámi, vellíðan án vímuefna, hugrænni atferlismeðferð og sjálfstyrkingu.
Reiknað er með að sextíu unglingar á ári taki þátt, helmingurinn í Reykjavík og hinn helmingurinn utan að landi. Erlendis hefur þetta úrræði reynst bæði árangursríkara fyrir unglingana sjálfa og ódýrara fyrir samfélagið.