Lögreglan í Kópavogi leitar manns sem ruddist inn í apótek Lyfs og heilsu við Smiðjuveg á ellefta tímanum í morgun og rændi þaðan lyfjum. Maðurinn kom inn í verslunina vopnaður exi og heimtaði lyf af starfsfólki sem hann fékk. Hann komst svo burt á hlaupum en engan sakaði í ráninu. Ekkert hefur spurst til mannsins síðan. Að sögn lögreglu er talið að maðurinn sé á fertugsaldri. Hann mun vera grannur og um 170 sentímetrar á hæð, en hann var dökkklæddur í hettupeysu þannig að starfsfólk gat ekki greint andlit hans nákvæmlega. Rannsókn á málinu stendur yfir.
