Lífið

Hvíti kóngurinn kom, sá og sigraði

Snorri Snorrason.
Snorri Snorrason.

Snorri Snorrason, 28 ára reykvíkingur var fyrir stundu kosinn Idol stjarna Íslands árið 2006. Snorri atti kapi við Ínu Valgerði Pétursdóttur, 18 ára Húsvíking og hafði betur. Alls bárust tæplega 116 þúsund atkvæði og hlaut Snorri 63.800 atkvæði eða 55%. Ína hlaut 52.200 atkvæði eða 45%.

Til samanburðar má nefna að í þriggja manna úrslitunum fyrir viku bárust 67 þúsund atkvæði.

Snorri og Ína hafa allt frá fyrsta úrslitaþætti staðið sig með miklum ágætum og þóttu snemma sigurstrangleg. Báðum tókst fljótt að vinna sér traust fylgi aðdáenda sem fleytti þeim alla leið í sjálf tveggja manna úrslitin.

Lögin sem Snorri og Ína tóku voru þrjú talsins. Að vanda var sá háttur hafður á að þau völdu sér eitt lag, dómefndin valdi fyrir þau eitt lag og svo sungu þau bæði nýtt lag, sérstaklega samið fyrir úrslitaþáttinn. Það lag heitir "Allt sem ég á" og var samið af hinum heimskunna lagahöfundi John Reid, sem m.a. hefur samið lög fyrir Westlife, Kelly Clarkson, Tinu Turner og Rod Stewart, og Óskari Páli Sveinssyni en íslenskur texti er eftir Stefán Hilmarsson. Þetta lag verður sérstaklega gefið út að lokinni keppni; bæði með sigurvegaranum og þeim sem hafnar í öðru sæti og verður fáanlegt m.a. á tonlist.is strax að lokinni keppni.

Snorri

Snorri hefur notið augljósrar hylli allt frá upphafi og til marks um það hafnaði hann aðeins einu sinni í þremur af neðstu sætunum í símakosningunni.

Snorri er 28 ára gamall Reykvíkingur, á konu og þrjú börn. Óhætt er að segja að "Hvíti kóngurinn" eins og hann er kallaður af stuðningsmönnum, hafi farið ótroðnar slóðir, bæði í nálgun við keppnina og lagavalið. Snorri er huldumaðurinn, sá hlédrægi; geðþekkur náungi sem minna hefur haft sig í frammi en margir aðrir keppendur í Idol-Stjörnuleit en vaxið mjög ásmeginn í keppninni.

Þá hefur lagavalið hans vakið nokkra athygli fyrir að vera býsna frábrugðið því sem hefðbundið þykir í Idol-keppnum; hefur um margt verið þyngra og rokkaðra en gengur og gerist. En í gegnum lagavalið má e.t.v. best sjá hvaða mann hann hefur að geyma; því þar fer ungur maður sem er einkar samkvæmur sjálfum sér, traustur náungi, sem syngur ekki bara hvað sem er heldur fyrst og fremst það sem hann sjálfur kann að meta, eitthvað sem liggur nærri hjarta hans, eitthvað sem hann skynjar og skilur. 

Snorri er rokkari af guðs náð, hefur mestar mætur á rokkgoðunum Robert Plant og Axl Rose, nokkuð sem endurspeglast sannarlega í söngstíl hans og tónlistarvali; um leið og honum hefur sannarlega tekist að skap sér sinn eigin stíl.

Lögin sem Snorri hefur sungið

  • 35 manna úrslit - "Can't Try Hard Enough" (Williams Brothers)
  • 12 manna úrslit - "Fuzzy" (Grant Lee Buffalo)
  • 11 manna úrslit - "The Weight (The Band)
  • 10 manna úrslit - "Give A Little Bit" (Supertramp)
  • 9 manna úrslit - "You To Me Are Everything" (The Real Thing)
  • 8 manna úrslit - "Dagný" (Vilhjálmur og Ellý Vilhjálms)
  • 7 manna úrslit - "Sunny Afternoon" (Kinks)
  • 6 manna úrslit - "Fly Me To The Moon" (Frank Sinatra)
  • 5 manna úrslit - "Skýið" (Björgvin Halldórsson)
  • 4 manna úrslit - "Sweet Child O'Mine (Guns'N'Roses) og Annie's Song (John Denver)
  • 3 manna úrslit - "Wake Me Up When September Ends" (Green Day) og "You Raise Me Up" (Westlife)
  • Úrslitaþáttur:
  • - Feel - Robbie Williams
  • - He Ain't Heavy, He's My Brother - Hollies
  • - Allt sem ég á

Ína Valgerður Pétursdóttir

Ína Valgerður er sannarlega einhver mesta uppgötvun sem gerðu hefur verið í íslenskri tónlist í lengri tíma. Þessi þróttmikla og glaðværa Húsavíkurmær er einungis 18 ára gömul og af því má ljóst vera að hún er nú þegar og án allra tvímæla orðin ein efnilegasta söngkona þjóðarinnar. 

Til marks um ótrúlegan vöxt í keppninni og skjótan þroska þá voru þeir eflaust ekki margir sem spáðu því í upphafi úrslitakeppninnar að þessi kornunga stúlka ætti eftir að syngja sig alla leið í sjálfan úrslitaþáttinn. En þá þegar í fyrsta úrslitaþættinum varð ljóst að þar fór söngkona með geysikröftuga rödd og rann það ekki hvað síst upp fyrir mönnum með öðrum og þriðja úrslitaþættinum er hún fór létt með að syngja lög tveggja af mestu söngkonum sögunnar; Janis Joplin og Whitney Houston. 

Og hún gerði sér lítið fyrir og fetaði í fótspor fleiri söngdíva í næstu þáttum; Gloria Gaynor, Ellý Vilhjálms og Dusty Springfield. Það var einmitt þá, þegar Ína söng "You Don't Have To Say You Love Me" í Bresku-poppbylgjuþættinum, að Páll Óskar spurði agndofa og fullur aðdáunar sjálfan sig, Ínu, dómnefndina og þjóðina alla hvort það væri einhver tegund tónlistar sem þessi stelpa gæti EKKI sungið! Og Einar Bárðar lagði þá til að hún drægi sig einfaldlega í hlé og kæmi aftur til leiks í úrslitaþættinum. 

Og það hefði hún hæglega getað gert, því hún fór alla leið í úrslitaþáttinn. Þó hún hafi lotið í lægra haldi fyrir Snorra íkvöld er ljóst að hún hefur ekki sungið sitt síðasta. 

Lögin sem Ína hefur sungið

  • 35 manna úrslit: "Listen to your heart" (Roxette) 12 manna úrslit - "A Moment Like This" (Kelly Clarkson) 
  • 11. manna úrslit - "Move Over" (Janis Joplin) 10 manna úrslit - "One Moment in Time" (Whitney Houston) 
  • 9 manna úrslit "I Will Survive" (Gloria Gaynor) 
  • 8 manna úrslit - "Heyr mína bæn" Ellý Vilhjálms
  •  7. manna úrslit - "You Don't Have To Say You Love Me" (Dusty Springfield) 
  • 6 manna úrslit - "Orange Coloured Sky" (Nat King Cole) 
  • 5 manna úrslit - "Ferjumaðurinn" (Mannakorn) 
  • 4 manna úrslit - "I Want To Dance With Somebody" (Whitney Houston) og "Something To Talk About" (Bonnie Raett) 
  • 3 manna úrslit - "Since You've Been Gone" (Kelly Clarkson) og "Speed of Sound" (Coldplay). 
  • Úrslitaþáttur: - Because You Loved Me - Celine Dion - Piece of My Heart - Janis Joplin - Allt sem ég á





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.