Sport

Fjögur Íslandsmet féllu

Íslandsmótið í bekkpressu var haldið í Laugardalshöllinni í dag og féllu alls fjögur Íslandsmet á mótinu þar sem mikil og góð stemming myndaðist eins og alltaf þegar þessi keppni fer fram. Það var Jakob Baldursson sem varð stigahæsti maður mótsins þegar hann lyfti 260 kílóum í 110 kg flokki, sem er nýtt Íslandsmet.

Jakob var fyrir mótið talinn líklegur til afreka og stóð fyllilega undir þeim væntingum í dag. Skaga-Kobbi, eins og hann er gjarnan kallaður, bætti þar með sinn besta árangur um 5 kíló.

Svavar Smárason setti nýtt íslandsmet í 100 kg flokki þegar hann lyfti 221,5 kílóum og sigraði í sínum flokki eftir harða baráttu við Brynjar "Binnster" Guðmundsson, sem tók 210 kíló.

Héraðsbúinn Ísleifur Árnason tvíbætti Íslandsmetið í 90 kg flokki og lyfti að lokum 217,5 kílóum í einvígi sínu við Jón "Bónda" Gunnarsson, sem tók 202,5 kíló og var rétt kominn upp með 213 kg sem hefðu verið persónulegt met hjá Jóni sem verður bara betri með aldrinum.

Þá bætti Jóhanna Eyvindsdóttir Íslandsmetið í kvennaflokki þegar hún lyfti 130 kílóum í fjórðu tilraun sinni, en Jóhanna bætti þar með eigið met um 10 kíló þrátt fyrir að vera komin í lægri þyngdarflokk en áður.

 



 

 

 



 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×