Innlent

Vinnufriður til að smíða fjölmiðlalög

MYND/Vísir

Vinnufriður ætti að vera kominn á til að smíða fjölmiðlalög. Þingflokksformenn stjórnarandstöðuflokkanna ákváðu í morgun að fallast á málamiðlunartillögu menntamálaráðherra um hvernig staðið skuli að smíði nýs frumvarps.

Frumvarp stjórnarflokkanna um fjölmiðlalög náði að hrista og skekja allt samfélagið fyrir tæpum tveimur árum, þrátt fyrir ítrekaða endurskoðun. Í kjölfarið óskaði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra eftir því að allir flokkar tækju þátt í að semja nýtt fjölmiðlafrumvarp. Ráðherra fékk hins vegar þau svör frá stjórnarandstöðunni að þeirra fólk hefði ekki áhuga, nema málefni Ríkisútvarpsins yrði einnig tekið með í störf nefndarinnar. Það stefndi því enn og aftur í misklíð og ósætti.

Í morgun dró þó til tíðinda á samráðsfundi stjórnarandstöðuflokkanna þegar ákveðið var að taka boði menntamálaráðherra um að ekki yrði skipuð ný fjölmiðlanefnd, heldur myndu lögfræðingar vinna frumvarp og nota til þess niðurstöðu gömlu fjölmiðlanefndarinnar. Hvort það þýðir að fjölmiðlalög renni ljúflega í gegn á Alþingi að þessu sinni kemur í ljós en lögfræðihópnum hefur ekki verið sett nein tímamörk. Margrét Frímannsdóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, segir að hið svokallaða RÚV-frumvarp muni líklega koma til fyrstu umræðu á þinginu og í menntamálanefnd verði tekið tillit til þeirra sjónarmiða sem Samfylkingin hafi verið með. Þá segir hún menntamálaráðherra ekki ætla að skipa nýja nefnd og hann hafi óskað eftir samstarfi og samráði sem flokkurinn sé tilbúinn til að gera.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×