Innlent

Bæjarstjóri Seltjarnarness gefur starfsmönnum gjafabréf án samþykkis

Jónmundur Guðmarsson, bæjarstjóri Seltjarnarness. Jónmundur segir þessa umbun ekki valda neinni útgjaldaaukningu fyrir bæjaryfirvöld því fundið verði svigrúm fyrir hana innan fjárhagsáætlunar. Hann bar ákvörðunina hins vegar ekki undir fjárhags- og launanefnd bæjarins sem oddviti minnihlutans í nefndinni segir bæjarstjórann ekki hafa heimild fyrir.
Jónmundur Guðmarsson, bæjarstjóri Seltjarnarness. Jónmundur segir þessa umbun ekki valda neinni útgjaldaaukningu fyrir bæjaryfirvöld því fundið verði svigrúm fyrir hana innan fjárhagsáætlunar. Hann bar ákvörðunina hins vegar ekki undir fjárhags- og launanefnd bæjarins sem oddviti minnihlutans í nefndinni segir bæjarstjórann ekki hafa heimild fyrir. MYND/Pjetur

Þrjátíu leikskólastarfsmenn á Seltjarnarnesi fengu gjafabréf í Kringlunni upp á 20 þúsund krónur að gjöf frá bæjaryfirvöldum um áramótin. Bæjarstjóri Seltjarnarness gaf vilyrði fyrir gjöfinni án samráðs við fjárhags- og launanefnd bæjarins. Hann hefur einnig gefið vilyrði fyrir því að allir 300 starfsmenn bæjarins fái sams konar gjafabréf.

Tólf starfsmenn leikskólans Sólbrekku á Seltjarnarnesi sögðu upp störfum í lok desember vegna óánægju með kjör sín. Í framhaldi af því funduðu leikskólastjórar Sólbrekku og Mánabrekku, sem er hinn leikskólinn á Seltjarnarnesi, með Jónmundi Guðmarssyni bæjarstjóra. Þar lögðu þeir til að allir starfsmenn leikskólanna, um 30 talsins, fengju gjafabréf í Kringlunni að upphæð 20 þúsund krónur frá bæjaryfirvöldum, og samþykkti bæjarstjórinn þá tillögu. Hann segist hafa gert það því ástandið á leikskólum Seltjarnarness hafi gefið tilefni til þess að umbuna starfsmönnum fyrir vel unnin störf, ekki síst í haust við þá manneklu sem þá hafi ríkt.

Jónmundur segir þessa umbun ekki valda neinni útgjaldaaukningu fyrir bæjaryfirvöld því fundið verði svigrúm fyrir hana innan fjárhagsáætlunar. Hann bar ákvörðunina hins vegar ekki undir fjárhags- og launanefnd bæjarins sem oddviti minnihlutans í nefndinni segir bæjarstjórann ekki hafa heimild fyrir. Aðspurður um það segir Jónmundur að í þessu tilviki hafi verið um að ræða ákvörðum viðkomandi forstöðumanna, þ.e. leikskólanna tveggja, innan fjárhagsáætlunar, sem sé raunverulega skuldbindandi. Hann reyndi þó að ná sambandi við formann fjárhags- og launanefndar, en án árangurs.

Þegar forstöðumaður starfsmannafélags Seltjarnarness heyrði af gjafmildi bæjarstjóra gekk hann á hans fund og spurði hvort ekki væri eðlilegt að allir starfsmenn bæjarins sætu við sama borð. Bæjarstjórinn var sammála því og gaf þar af leiðandi vilyrði fyrir því að allir starfsmenn Seltjarnarness, sem eru um 300 talsins, fengju gjafabréf upp á 20 þúsund krónur, eða samtals sex milljónir króna. Jónmundur segist hafa gert það því svona ákvörðun hafi „ákveðið fordæmisgildi" að hans mati.

Fjárhags- og launanefnd Seltjarnarness mun funda um það í næstu viku hvort starfsmennirnir 300 fái umrædd gjafabréf. Leikskólastarfsmennirnir hafa hins vegar nú þegar fengið sín gjafabréf afhent.

Heyrst hefur undanfarna daga að þeir starfsmenn Sólbrekku sem sögðu upp í desember ætli hugsanlega að draga uppsagnir sínar til baka. Aðspurð hvort það sé reyndin, og þá m.a. með hliðsjón af umræddum gjafabréfum, segir Ásdís Þorsteinsdóttir, aðstoðarskólastjóri Sólbrekku, enga ákvörðun liggja fyrir um það að svo stöddu. Ákvörðunin muni þó líklega liggja fyrir á morgun eða föstudag, eða að loknum fundi með bæjaryfirvöldum á Seltjarnarnesi. Þar verður einnig rætt n.k. álags- eða mætingahvetjandi kerfi fyrir starfsmenn leikskólanna sem hugsanlega verður komið á fót til að bæta kjör þeirra.

 

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×