Innlent

Starfslokasamningar hljóti samþykki hluthafa

Össur Skarphéðinsson.
Össur Skarphéðinsson.

Stjórnum fyrirtækja verður gert skylt að leggja starfslokasamninga undir hluthafafund nái væntanlegt frumvarp Samfylkingarþingmanna um breytingar á hlutafélagalögum fram að ganga.

Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að þar með yrðu það ekki fámennar klíkur sem tækju ákvarðanir um slíka samninga heldur raunverulegir hluthafar í viðkomandi fyrirtækjum. Málið er á frumstigi og hefur vinna við frumvarpsgerðina farið af stað að frumkvæði Össurar og nokkurra annarra þingmanna.

Össur segir vinnuna hafa farið af stað í kjölfar frétta af starfslokagreiðslum FL Group til tveggja fyrrverandi stjórnenda félagsins upp á tæplega 300 milljónir króna. Þeir samningar hafa vakið hörð viðbrögð í samfélaginu og segir Össur þá hafa sært sómatilfinningu margra. Össur segist viss um að það verði full samstaða um málið í þingflokki Samfylkingarinnar þegar það verði fullrætt. Hann segist eiga von á því að frumvarpið verði tilbúið á næstu dögum og það verði síðan lagt fram í byrjun þings 17. janúar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×