Fátækt er raunveruleiki á Íslandi 28. desember 2006 05:00 Aðventan er liðin og jólahátíðin sjálf komin og farin. Eitt af föstum fréttaefnum jólaföstunnar eru tíðindi af fjárstuðningi og matargjöfum Mæðrastyrksnefndar, Hjálparstarfs kirkjunnar og Fjölskylduhjálpar Íslands til fátækra Íslendinga. Vissulega er hér um fréttaefni að ræða, að hér á landi hagsældar og velmegunar skuli vera allstór hópur fólks sem ekki á annars úrkosta en að þiggja matargjafir fyrir jólin. Á jólaföstunni var einnig birt skýrsla forsætisráðherra um fátækt barna á Íslandi og hag þeirra. Í þeirri skýrslu kom fram að nærri 5.000 börn á Íslandi, eða meira en sex prósent íslenskra barna, búa við við fátækt. Vitanlega var tilviljun að skýrslan kom fram á fyrrihluta jólaföstu, skömmu áður en flutningur hinna árlegu frétta af aðstoð félagasamtaka við fátækt fólk í tilefni jóla hófst. Staðreynd er að allmargir Íslendingar, börn og fullorðnir, búa við fátækt árið um kring. Þetta er sem betur fer ekki mikill fjöldi fólks en þó allt of stór hópur og skammarlega stór hjá þjóð sem telst meðal ríkustu þjóða heims. Af þessum hópi eru sjaldan fluttar fréttir hinar fimmtíu vikur ársins og þorri Íslendinga hefur litla hugmynd um aðstæður fólksins. Það er nefnilega ekki bara sárt að vera fátækur á jólum. Það er alltaf sárt að vera fátækur, hvar sem er og hvenær sem er. Horfast verður í augu við að fátækt verður áreiðanlega aldrei útrýmt algerlega. Þeir verða alltaf til sem af einhverjum ástæðum búa við fátækt um lengri eða skemmri tíma. Hitt er annað að hjá ríkustu þjóð heims er óviðunandi að fullvinnandi fólk hafi svo lág laun að það geti ekki framfleytt fjölskyldum sínum. Einnig að þeir sem vegna sjúkdóma eða slysa geta ekki tekið þátt í atvinnulífinu þurfi að lifa undir fátæktarmörkum, eða aldraðir sem þurfa að framfleyta sér á tryggingabótum einum saman. Alvarlegast er þó að svo stór hópur barna búi við fátækt á Íslandi, að velferðarkerfi landsins skuli ekki nýtast betur en raun ber vitni til að bæta kjör þeirra sem eiga að erfa landið. Það er tilgangslaust að karpa um það hvað sé fátækt og hvað ekki fátækt. Meðan hér vex úr grasi hópur barna sem ekki hefur tækifæri til að sækja sér menntun að loknu grunnskólanámi og ekki getur tekið þátt í tómstundastarfi utan skóla er ljóst að grundvallarþættir í velferðarsamfélaginu eru ekki í lagi. Í skýrslu forsætisráðherra kemur fram að skatta- og bótakerfið bæti umtalsvert hag þeirra sem minnst hafa milli handanna. Sú grundvallarhugsun að einmitt þetta sé einn megintilgangur skatta- og bótakerfis má ekki fara forgörðum. Það er ekki nóg að gefa fátæktinni gaum tvær vikur á ári, á jólaföstu. Fátækt á Íslandi verður að uppræta og til þess að það geti orðið þarf að gefa henni gaum allar fimmtíu og tvær vikur ársins. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Steinunn Stefánsdóttir Mest lesið Píkudýrkun Kolbrún Bergþórsdóttir Skoðun Tilraun til 40 ára býður skipbrot - allir þegja Björn Ólafsson Skoðun Upplýsingahernaður Helgi Hrafn Gunnarsson Skoðun Fortune 500 forstjórar heillaðir af „hybrid“. Hvað með nýju ríkisstjórnina? Tómas Hilmar Ragnarz Skoðun Blekking Valkyrjanna Högni Elfar Gylfason Skoðun Isavia - þar sem sögur fara á flug Skúli Gunnar Sigfússon Skoðun Hvernig væri að Isavia setti viðskiptavini sína í forgang? Ó. Ingi Tómasson Skoðun Munu næstu fjögur ár nægja? Kolbrún Halldórsdóttir Skoðun Að ná sér Skúli S. Ólafsson Skoðun Ég vil fá boð í þessa veislu! Silja Björk Björnsdóttir Skoðun
Aðventan er liðin og jólahátíðin sjálf komin og farin. Eitt af föstum fréttaefnum jólaföstunnar eru tíðindi af fjárstuðningi og matargjöfum Mæðrastyrksnefndar, Hjálparstarfs kirkjunnar og Fjölskylduhjálpar Íslands til fátækra Íslendinga. Vissulega er hér um fréttaefni að ræða, að hér á landi hagsældar og velmegunar skuli vera allstór hópur fólks sem ekki á annars úrkosta en að þiggja matargjafir fyrir jólin. Á jólaföstunni var einnig birt skýrsla forsætisráðherra um fátækt barna á Íslandi og hag þeirra. Í þeirri skýrslu kom fram að nærri 5.000 börn á Íslandi, eða meira en sex prósent íslenskra barna, búa við við fátækt. Vitanlega var tilviljun að skýrslan kom fram á fyrrihluta jólaföstu, skömmu áður en flutningur hinna árlegu frétta af aðstoð félagasamtaka við fátækt fólk í tilefni jóla hófst. Staðreynd er að allmargir Íslendingar, börn og fullorðnir, búa við fátækt árið um kring. Þetta er sem betur fer ekki mikill fjöldi fólks en þó allt of stór hópur og skammarlega stór hjá þjóð sem telst meðal ríkustu þjóða heims. Af þessum hópi eru sjaldan fluttar fréttir hinar fimmtíu vikur ársins og þorri Íslendinga hefur litla hugmynd um aðstæður fólksins. Það er nefnilega ekki bara sárt að vera fátækur á jólum. Það er alltaf sárt að vera fátækur, hvar sem er og hvenær sem er. Horfast verður í augu við að fátækt verður áreiðanlega aldrei útrýmt algerlega. Þeir verða alltaf til sem af einhverjum ástæðum búa við fátækt um lengri eða skemmri tíma. Hitt er annað að hjá ríkustu þjóð heims er óviðunandi að fullvinnandi fólk hafi svo lág laun að það geti ekki framfleytt fjölskyldum sínum. Einnig að þeir sem vegna sjúkdóma eða slysa geta ekki tekið þátt í atvinnulífinu þurfi að lifa undir fátæktarmörkum, eða aldraðir sem þurfa að framfleyta sér á tryggingabótum einum saman. Alvarlegast er þó að svo stór hópur barna búi við fátækt á Íslandi, að velferðarkerfi landsins skuli ekki nýtast betur en raun ber vitni til að bæta kjör þeirra sem eiga að erfa landið. Það er tilgangslaust að karpa um það hvað sé fátækt og hvað ekki fátækt. Meðan hér vex úr grasi hópur barna sem ekki hefur tækifæri til að sækja sér menntun að loknu grunnskólanámi og ekki getur tekið þátt í tómstundastarfi utan skóla er ljóst að grundvallarþættir í velferðarsamfélaginu eru ekki í lagi. Í skýrslu forsætisráðherra kemur fram að skatta- og bótakerfið bæti umtalsvert hag þeirra sem minnst hafa milli handanna. Sú grundvallarhugsun að einmitt þetta sé einn megintilgangur skatta- og bótakerfis má ekki fara forgörðum. Það er ekki nóg að gefa fátæktinni gaum tvær vikur á ári, á jólaföstu. Fátækt á Íslandi verður að uppræta og til þess að það geti orðið þarf að gefa henni gaum allar fimmtíu og tvær vikur ársins.
Fortune 500 forstjórar heillaðir af „hybrid“. Hvað með nýju ríkisstjórnina? Tómas Hilmar Ragnarz Skoðun
Fortune 500 forstjórar heillaðir af „hybrid“. Hvað með nýju ríkisstjórnina? Tómas Hilmar Ragnarz Skoðun