Jólin eru ekki ókeypis 22. desember 2006 00:01 Daginn er að lengja. Myrkrið hörfar undan, og jólin nálgast, þegar ljós eru tendruð í öllum húsum. Það er ekki úr vegi að minna á, að þessi ljós urðu ekki til fyrir tilviljun, heldur vegna þess að íslenskir verkfræðingar beisluðu hin stríðu straumvötn og leiddu rafmagn í hús. Annað afrek þeirra er að hafa úthýst kuldanum, en sá óvelkomni gestur hímdi í þúsund ár inni í húsum Íslendinga um þetta leyti árs. Sumt, sem við teljum nú sjálfsagt, er afleiðing langrar baráttu, ekki aðeins við náttúruöflin, heldur líka um markmið og leiðir. Hvernig stendur til dæmis á því, að við höfum efni á að eyða stórfé um jólin? Einhverjir eyða eflaust um efni fram fyrir þessi jól. Það breytir því ekki, að Íslendingar eru í röð ríkustu þjóða heims. En það er ekki sjálfsagt fremur en ljós og ylur innan dyra. Í lok nítjándu aldar voru Íslendingar fátækasta þjóð Vestur-Evrópu. Þriðjungur landsmanna hafði hrakist vestur um haf. Fyrri hluta tuttugustu aldar vorum við aðeins hálfdrættingar í tekjum á við Dani. Við hernámið 1940 komumst við hins vegar upp fyrir þá í tekjum og nutum síðan stríðsgróða í heitu stríði og köldu, en einnig þess, að við rákum í fjórum þorskastríðum útlendinga af hinum gjöfulu Íslandsmiðum og jusum þar upp fiski. Í lok níunda áratugar, þegar við gátum ekki lengur treyst ýmist á stríðsgróða eða rányrkju, spáðu sumir hagfræðingar því, að við ættum aftur eftir að verða fátækasta þjóð Vestur-Evrópu. Þær spár voru ekki fráleitar, eins og stjórnarstefnan var á þeirri tíð. Biðstofa forsætisráðherra var troðfull af fólki, sem var að útvega sér fé úr opinberum sjóðum til að reka misheppnuð fyrirtæki. Verkföll voru tíð, en undantekningarlaust samið um miklu hærra kaup en atvinnulífið gat staðið undir og verðbólga látin jafna metin. Þrálátur halli var á fjárlögum, og hið opinbera safnaði skuldum. Ríkið rak fjölda atvinnufyrirtækja, og um þau gilti hið sama og kampavínið: Þegar vel gekk, áttu þau skilið meiri fjárframlög, og þegar illa gekk, sem var miklu oftar, þurftu þau sárlega meiri fjárframlög. Vorið 1991 var skipt um stefnu með það fyrir augum að opna hagkerfið og auka atvinnufrelsi. Biðstofa forsætisráðherra tæmdist snögglega, því að sjóðirnir, sem hann hafði áður skammtað úr, voru ýmist lagðir niður eða settar um þá strangar reglur. Með aðhaldi í peningamálum hjaðnaði verðbólga niður í það, sem hún er í grannríkjunum. Halli á fjárlögum breyttist í tekjuafgang, sem notaður var til að greiða niður skuldir ríkisins. Afnotaréttur útgerðarfyrirtækja af fiskimiðum var staðfestur í lögum, svo að þau gátu einbeitt sér að arðbærum rekstri. Lífeyrissjóðir voru treystir, en hefðu ella tæmst. Þunglamaleg ríkisfyrirtæki voru seld og tóku óðar fjörkipp, sneru tapi í gróða. Skattar voru lækkaðir, jafnt á fyrirtækjum og almenningi. Íslendingar réttu úr sér og héldu í víking erlendis, þótt þeir veifuðu að þessu sinni verði frekar en sverði. Þessi fimmtán ár hefur kaupmáttur ráðstöfunartekna aukist um nær helming. Eflaust er þeim kjarabótum eitthvað misskipt, en aðalatriðið er það, að allir búa við bættan hag. Íslendingar hafa því ekki aðeins efni á jólunum, heldur líka á því að búa vel að þeim, sem eiga undir högg að sækja. Ég skal aðeins nefna hér tvær tölur í því sambandi. Skattgreiðslur bankanna nema á þessu ári um 12 milljörðum króna. Áður greiddu bankar sáralítil opinber gjöld. Skatttekjur ríkisins af fjármagnstekjuskatti nema á þessu ári um 18 milljörðum króna (eða jafnvel meira). Áður bar fjármagn á Íslandi lítinn sem engan ávöxt. Samtals eru þessar nýju tekjur ríkissjóðs, sem skapast hafa vegna aukins atvinnufrelsis, um 30 milljarðar króna. Setjum svo, að 5% landsmanna geti ekki bjargað sér sjálfir, til dæmis vegna elli, örorku eða erfiðra sjúkdóma. Þetta eru þá 15 þúsund manns. Sé þessum 30 milljörðum króna deilt beint á þetta fólk, þá fær hver maður tvær milljónir í sinn hlut. Þetta er hinn áþreifanlegi ávinningur af frelsinu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Hannes Hólmsteinn Gissurarson Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun Raforkunotkun gagnavera minnkað mikið Tinna Traustadóttir Skoðun Skammtatölvur: Framtíð tölvunarfræði og bylting í útreikningum Sigvaldi Einarsson Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Göngum fyrir friði Guttormur Þorsteinsson Skoðun
Daginn er að lengja. Myrkrið hörfar undan, og jólin nálgast, þegar ljós eru tendruð í öllum húsum. Það er ekki úr vegi að minna á, að þessi ljós urðu ekki til fyrir tilviljun, heldur vegna þess að íslenskir verkfræðingar beisluðu hin stríðu straumvötn og leiddu rafmagn í hús. Annað afrek þeirra er að hafa úthýst kuldanum, en sá óvelkomni gestur hímdi í þúsund ár inni í húsum Íslendinga um þetta leyti árs. Sumt, sem við teljum nú sjálfsagt, er afleiðing langrar baráttu, ekki aðeins við náttúruöflin, heldur líka um markmið og leiðir. Hvernig stendur til dæmis á því, að við höfum efni á að eyða stórfé um jólin? Einhverjir eyða eflaust um efni fram fyrir þessi jól. Það breytir því ekki, að Íslendingar eru í röð ríkustu þjóða heims. En það er ekki sjálfsagt fremur en ljós og ylur innan dyra. Í lok nítjándu aldar voru Íslendingar fátækasta þjóð Vestur-Evrópu. Þriðjungur landsmanna hafði hrakist vestur um haf. Fyrri hluta tuttugustu aldar vorum við aðeins hálfdrættingar í tekjum á við Dani. Við hernámið 1940 komumst við hins vegar upp fyrir þá í tekjum og nutum síðan stríðsgróða í heitu stríði og köldu, en einnig þess, að við rákum í fjórum þorskastríðum útlendinga af hinum gjöfulu Íslandsmiðum og jusum þar upp fiski. Í lok níunda áratugar, þegar við gátum ekki lengur treyst ýmist á stríðsgróða eða rányrkju, spáðu sumir hagfræðingar því, að við ættum aftur eftir að verða fátækasta þjóð Vestur-Evrópu. Þær spár voru ekki fráleitar, eins og stjórnarstefnan var á þeirri tíð. Biðstofa forsætisráðherra var troðfull af fólki, sem var að útvega sér fé úr opinberum sjóðum til að reka misheppnuð fyrirtæki. Verkföll voru tíð, en undantekningarlaust samið um miklu hærra kaup en atvinnulífið gat staðið undir og verðbólga látin jafna metin. Þrálátur halli var á fjárlögum, og hið opinbera safnaði skuldum. Ríkið rak fjölda atvinnufyrirtækja, og um þau gilti hið sama og kampavínið: Þegar vel gekk, áttu þau skilið meiri fjárframlög, og þegar illa gekk, sem var miklu oftar, þurftu þau sárlega meiri fjárframlög. Vorið 1991 var skipt um stefnu með það fyrir augum að opna hagkerfið og auka atvinnufrelsi. Biðstofa forsætisráðherra tæmdist snögglega, því að sjóðirnir, sem hann hafði áður skammtað úr, voru ýmist lagðir niður eða settar um þá strangar reglur. Með aðhaldi í peningamálum hjaðnaði verðbólga niður í það, sem hún er í grannríkjunum. Halli á fjárlögum breyttist í tekjuafgang, sem notaður var til að greiða niður skuldir ríkisins. Afnotaréttur útgerðarfyrirtækja af fiskimiðum var staðfestur í lögum, svo að þau gátu einbeitt sér að arðbærum rekstri. Lífeyrissjóðir voru treystir, en hefðu ella tæmst. Þunglamaleg ríkisfyrirtæki voru seld og tóku óðar fjörkipp, sneru tapi í gróða. Skattar voru lækkaðir, jafnt á fyrirtækjum og almenningi. Íslendingar réttu úr sér og héldu í víking erlendis, þótt þeir veifuðu að þessu sinni verði frekar en sverði. Þessi fimmtán ár hefur kaupmáttur ráðstöfunartekna aukist um nær helming. Eflaust er þeim kjarabótum eitthvað misskipt, en aðalatriðið er það, að allir búa við bættan hag. Íslendingar hafa því ekki aðeins efni á jólunum, heldur líka á því að búa vel að þeim, sem eiga undir högg að sækja. Ég skal aðeins nefna hér tvær tölur í því sambandi. Skattgreiðslur bankanna nema á þessu ári um 12 milljörðum króna. Áður greiddu bankar sáralítil opinber gjöld. Skatttekjur ríkisins af fjármagnstekjuskatti nema á þessu ári um 18 milljörðum króna (eða jafnvel meira). Áður bar fjármagn á Íslandi lítinn sem engan ávöxt. Samtals eru þessar nýju tekjur ríkissjóðs, sem skapast hafa vegna aukins atvinnufrelsis, um 30 milljarðar króna. Setjum svo, að 5% landsmanna geti ekki bjargað sér sjálfir, til dæmis vegna elli, örorku eða erfiðra sjúkdóma. Þetta eru þá 15 þúsund manns. Sé þessum 30 milljörðum króna deilt beint á þetta fólk, þá fær hver maður tvær milljónir í sinn hlut. Þetta er hinn áþreifanlegi ávinningur af frelsinu.
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun