Tónlist

Fagmennska er ekki nóg!

Enn ein Ædolplatan sem er alveg eins og enn ein Ædolplatan, nema að það er meira kántrí og slidegítar.
Enn ein Ædolplatan sem er alveg eins og enn ein Ædolplatan, nema að það er meira kántrí og slidegítar.

Þegar ég fékk plötu Bríetar Sunnu í hendurnar hugsaði ég með mér að hér væri komin enn ein Ædol-platan, hrikalega ófrumleg um-slagsmynd sagði allt sem segja þurfti. Ég leit aftan á plötuna og skoðaði lagalistann.

„Nohh, þeir hafa ákveðið að treysta á ábreiðulögin, greinilegt að frumsömdu lögin hafa ekki verið að gera sig,“ hugsaði ég með mér. Leit síðan á það hverjir íslenskuðu lögin og mér til nákvæmlega engrar furðu voru það Stefán Hilmarsson, Einar Bárðarson og Kristján Hreinsson. Leit inn í umslagið til þess að athuga hvort þér/mér/hér-rím væri ekki örugglega að finna í textum Einars. Júbb, í báðum lögunum hans. Einar klikkar ekki.

Ég skoðaði betur lögin og þóttist þekkja að hér væru á ferðinni tónmild kántrílög enda hafði Bríet oft lýst yfir ást sinni á slíkum lögum í Ædolinu. Af fyrri reynslu þóttist ég samt vita að hér myndi ekki kveða við nýjan tón.

Ædol-diskarnir hafa hingað til einkennst af ófrumleika, einsleitum útsetningum, fljótfærni og gríðarlegri hræðslu við að taka áhættu. Því ætti þessi plata Bríetar Sunnu að vera eitthvað öðruvísi en hinar?

Eitt var ég líka viss um; frammistaða Bríetar átti eftir að vera hin fínasta enda ágæt söngkona þar á ferð. Á listanum yfir þá sem komu að upptöku plötunnar var ég líka viss um að engan viðvaningsbrag mætti finna á plötunni. En það er einfaldlega ekki nóg að tónlist sé fagmannlega gerð. Það þarf einfaldlega svo miklu miklu miklu miklu meira, allavega til þess að tónlist geti talist góð. Ég endaði samt að sjálfsögðu á því að hlusta á gripinn almennilega en því miður, og ég endurtek: því miður, reyndust áhyggjur mínar um ágæti plötunnar á rökum reistar.

Steinþór Helgi Arnsteinsson






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.