Innlent

Milljarða fjárveiting nær ekki til aldraðra

Ríkið greiðir dvalar- og hjúkrunarheimilum hér á landi yfir 15 milljarða króna til reksturs án þess að skilgreina hvaða þjónustu það fær í staðinn. Þar sem engir þjónustusamningar hafa verið gerðir um hvernig þessu fé skal varið geta stjórnendur þessara stofnana farið með féð að vild. Á meðan slíkir samningar hafa ekki verið gerðir hafa engar reglur verið brotnar. Þetta kom fram í máli Dagbjartar Þyrí Þorvarðardóttur, hjúkrunarfræðings og fyrrverandi hjúkrunarforstjóra Hrafnistuheimilanna, á námstefnu Öldrunarfræðafélags Íslands.

Dagbjört Þyrí segir að ekkert muni breytast til batnaðar í þjónustu við aldraða fyrr en ríkið gerir þjónustusamninga við öll dvalar- og hjúkrunarheimili. Hún nefnir dæmi. „Ríkið greiðir jafn mikið fyrir einstakling sem fær einbýli og þann sem fær fjölbýli. Ríkið greiðir einnig jafn mikið fyrir einstakling sem fær fimm hjúkrunarstundir á sólarhring og einstakling sem fær eina hjúkrunarstund á sólarhring.“

Á dvalarheimilum Hrafnistu í Reykjavík og Hafnarfirði eru 340 rými og heimilið hefur leyfi fyrir 150 einstaklinga á hjúkrunargjöldum á dvalarheimilinu. Þannig er heimilið að fá hjúkrunardaggjöld greidd frá ríkinu fyrir um 150 einstaklinga sem búa á dvalarheimilum Hrafnistu en þau eru um átta þúsund krónum hærri á sólarhring en daggjöld greidd fyrir dvalarheimilisrými. Á sama tíma þurfa önnur heimili sem eingöngu eru hjúkrunarheimili að veita fjórar til fimm hjúkrunarklukkustundir á sólarhring fyrir sömu daggjöld.

Dagbjört Þyrí staðfestir þetta. „Það er ljóst að þeir öldruðu sem dvelja á deildum dvalarheimilis eins og Hrafnistu, en eru metnir í þörf fyrir hjúkrunarrými, eru ekki að fá þá þjónustu sem ríkið greiðir fyrir eða þá þjónustu sem þeir þarfnast.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×