Innlent

Meintur barnaníðingur tekinn

Lögreglan á Akureyri rannsakar meðal annars tölvubúnað meints barnaníðings.
Lögreglan á Akureyri rannsakar meðal annars tölvubúnað meints barnaníðings.

Lögreglan á Akureyri rannsakar nú mál meints barnaníðings gegn tíu ára telpu. Hann var tekinn til yfirheyrslu fyrr í vikunni og mun hafa játað sök, samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins.

Aðdragandi þess að athæfið komst upp var sá að telpan sem um ræðir brotnaði saman á heimili sínu síðastliðinn föstudag. Hún tjáði móður sinni að hún byggi yfir leyndarmáli, sem hún mætti ekki tala um. Fyrir fortölur leysti hún frá skjóðunni og sagði frá því að tilgreindur maður hefði gert tiltekna hluti við sig. Talið er að brotin hafi staðið yfir svo vikum, jafnvel mánuðum skipti. Fulltrúar Barnahúss fóru norður til Akureyrar í fyrradag og ræddu við stúlkuna.

Lögreglunni á Akureyri var þegar gert viðvart og hóf hún þegar að rannsaka málið. Maðurinn var handtekinn á vinnustað sínum og færður til yfirheyrslu síðastliðinn þriðjudag, þar sem hann játaði það sem litla stúlkan hafði greint frá. Honum var sleppt við svo búið. Lögreglan gerði húsleit, bæði heima hjá manninum og á vinnustað hans. Tölvubúnaður hans er til rannsóknar hjá lögreglunni. Daníel Snorrason rannsóknarlögreglumaður á Akureyri kvaðst ekki vilja tjá sig um málið á þessu stigi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×