Innlent

Unglingarnir verða að ganga í skólann

Unglingar sem búa vestast í Vesturbænum þurfa nú að ganga í skólann, láta aka sér eða fá foreldrana til að borga strætómiða. Borgin styrkir ekki kaup á strætómiðum.
Unglingar sem búa vestast í Vesturbænum þurfa nú að ganga í skólann, láta aka sér eða fá foreldrana til að borga strætómiða. Borgin styrkir ekki kaup á strætómiðum.

Óánægju gætir meðal foreldra í Vesturbænum vegna nýrra reglna varðandi skólaakstur eða strætómiða í skólann. Unglingar í sjötta til tíunda bekk verða nú að búa í meira en tveggja kílómetra fjarlægð frá Hagaskóla til að fá strætómiða og hafa ekki í annan skóla að venda þar sem Hagaskóli er eini grunnskólinn í Vesturbænum fyrir áttunda til tíunda bekk.

Reglurnar tóku gildi í marsbyrjun 2005 og hafa þau áhrif að unglingar, sem búa vestast í Vesturbænum og fengu áður strætómiða, verða nú að ganga í skólann um 25 mínútna leið, taka strætó á Nesvegi eða vera ekið. Elín Sigurðardóttir prentsmiður er móðir unglings í Hagaskóla og hún segir að þetta þýði um 10 þúsund króna útgjöld fyrir sig aukalega á mánuði ef barnið tekur strætó.

Elín hefur hringt í skólann og sent menntaráði tölvupóst. Hún segist hafa fengið þær upplýsingar að hún geti sótt um undanþágu en veit ekki hvað þarf til. Hún hyggst senda borginni formlegt erindi innan skamms.

Júlíus Vífill Ingvarsson er formaður menntaráðs. Hann segir að sú regla hafi verið sett í mars 2005 að nemendur í 8.-10. bekk sem búi í meira en tveggja kílómetra fjarlægð frá skóla eigi rétt á skólaakstri eða strætómiðum. Kvartanir hafi borist sem tekið verði fullt tillit til. Hann hefur beðið um að farið verði yfir málið og svo tekin ákvörðun um framhaldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×