Innlent

Kærð fyrir niðrandi ummæli

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson fornleifafræðingur, sem búsettur er í Kaupmannahöfn, hefur kært Jan Jensen, einn ritstjóra Ekstra Bladet, fyrir að halda því fram að Íslendingar stefni allir sem einn að heimsyfirráðum í blaðinu á sunnudaginn.

„Þar er því haldið fram að Íslendingar eigi í alheimssamsæri," segir Vilhjálmur. „Ég kannast ekki við að stefna að heimsyfirráðum og mín kæra byggir á hegningarlögum 266-B, en Danir kalla þá lagagrein gjarnan „rasistaparagraffið" því það er oft notað gegn stjórnmálamönnum, til dæmis Þjóðarflokksins, sem hafa horn í síðu útlendinga.

Að sögn Vilhjálms er lagagreinin skýr og hann telur fulla ástæðu til að kæra. „Það er ekki á hverjum degi sem því er lýst yfir að ein þjóð eða þjóðarbrot sé að taka yfir heiminn. Hvað þá að haldið sé fram að bróðurþjóð Dana sé í samsæri gegn Dönum. Þetta var reyndar gert á stríðsárunum þegar nasistar lýstu því yfir að danskir gyðingar væru í alheimssamsæri. Kæra mín er prófmál og mér finnst tilvalið að láta reyna á þessa grein hegningarlaganna í þessu tilfelli. Menn geta hlegið að þessu en þetta er enginn brandari," segir Vilhjálmur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×