Innlent

Slúðurblöð gefa falska mynd

Maria Jolanta Polanska
Maria Jolanta Polanska

Pólverjar sem koma skyndilega og óhugsað til Íslands hafa oft verið atvinnulausir lengi í Póllandi. Maria Jolanta Polanska, túlkur í Alþjóðahúsi, segir að þetta fólk hafi ekki mikla skólagöngu að baki, sé frá litlum þorpum og komi hingað í leit að betra lífi.

Pólsk slúðurblöð eiga sinn þátt í því að æsa leikinn með skrifum um betra líf og kjör í útlöndum. Maria segist hafa lesið viðtal við Pólverja sem hafi búið hér í tvö ár og hafi lýst því hvernig hann byggi í 140 fermetra húsnæði, æki fínum bíl og færi tvisvar á ári til sólarlanda.

„Það er satt að hann býr í svona húsnæði og ekur á svona bíl en hann gleymdi að segja það að konan sem hann giftist hér er búin að búa hér í fimmtán ár og var rosalega dugleg og var alltaf í þrefaldri vinnu. En fólk sem les þetta trúir svona sögum og veit ekki að á bak við húsnæðið er 25 eða 40 ára lán,“ segir hún.

Dæmi eru um að fólk komi með ferðatöskurnar sínar beint í Alþjóðahús frá flugvellinum og spyrji um vinnu og húsnæði, að sögn Mariu, og hér eru líka Pólverjar sem hafa verið plataðir hingað gegnum starfsmannaleigur á fölskum forsendum.

„Oft eru Pólverjar Pólverjum verstir,“ segir Maria Jolanta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×