Hvalalosti 25. október 2006 00:01 Hvers vegna heyja menn stríð? Hvers vegna finna menn ekki friðsamlegri leið til að skera úr ágreiningi? Þessar spurningar eru ævagamlar, og svörin eru margvísleg og misgóð eftir aðstæðum. Adam Smith færði frumleg rök að þeirri hugmynd í Auðlegð þjóðanna (1776), að almenningur hefði öðrum þræði yndi af styrjöldum fjarri heimahögum, hefði gaman af að fylgjast með frásögnum af bardögum í blöðunum líkt og margir á okkar dögum hafa gaman af stríðsmyndum og væri því fús að kosta styrjaldir með sköttum og skyldum, úr öruggri fjarlægð. Kóngar og keisarar kæmust því upp með að heyja fleiri og lengri stríð en ella. Fjölmiðlar um okkar daga leggja mikið rými undir stríð og selja auglýsingar eftir því, en styrjaldir vekja samt mismikla athygli. Íraksstríðið síðan 2003 hefur tekið mikið rúm í fjölmiðlum, en borgarastyrjöldin í Kongó síðustu ár, miklu mannskæðara stríð, var að mestu háð utan við ratsjár evrópskra og amerískra fjölmiðla. Þjóðarmorðið í Darfur í Súdan vekur ekki heldur mikla athygli eða umtal og heldur því áfram. Stundum fara stjórnarherrar í stríð til að dreifa athygli almennings frá óþægilegum innanlandsmálum. Ég segi stjórnarherrar, því að konur fara sjaldan í stríð. Nýlegt dæmi um stríðsrekstur af innanlandsástæðum er innrás Argentínuhers í Falklandseyjar vorið 1982 undir forustu Leópolds Galtíeri hershöfðingja. Þannig var, að herforingjar höfðu hrifsað til sín öll völd í Argentínu sex árum áður, 1976, lokað löggjafarþinginu, innleitt stranga ritskoðun, bannlýst stjórnmálaflokka og verkalýðsfélög og ráðizt í víðtækar hreinsanir meðal meintra andstæðinga. Hreinsanirnar eru kallaðar „Óhreina stríðið" þarna suður frá og kostuðu þrettán til fimmtán þúsund manns lífið, oft að lokinni fangavist og pyntingum. Mæður sumra þeirra þúsunda, sem hurfu sporlaust, gerðu kjarkaða uppreisn gegn herforingjunum og vöktu heimamenn og heimsbyggðina til vitundar um mannréttindabrotin og morðin, sem herforingjastjórnin hafði gert sig seka um. Barnlausir hershöfðingjar urðu síðar uppvísir að því að hafa rænt ungabörnum sumra fórnarlamba sinna og ættleitt þau; sérstök leyniskrifstofa sá um þennan verkþátt. Argentínsku mæðurnar áttu á brattann að sækja vegna ritskoðunar, útgöngubanns og almenns og lamandi ótta við leyniþjónustu herforingjastjórnarinnar. Efnahagslífið var bókstaflega í hers höndum, verðbólgan æddi áfram og mældist í þriggja stafa tölum, erlendar skuldir hrönnuðust upp, og innlendur iðnaður og aðrir útflutningsatvinnuvegir komust í alvarlegar kröggur. Af öllum þessum ástæðum varð herforingjastjórnin, sem hafði hrifsað til sín völd til að tryggja stöðugleika í efnahagslífinu, verr og verr þokkuð meðal almennings. Nú voru góð ráð dýr. Og þá datt herforingjunum það snjallræði í hug að ráðast á Falklandseyjar í apríl 1982, en þær liggja tæpa 500 kílómetra undan ströndum Argentínu og höfðu lengi tilheyrt Bretum og sært þjóðarstolt margra Argentínumanna. Þarna bjuggu um tvö þúsund manns með 700.000 rollur. Ríkisstjórn Margrétar Thatcher á Bretlandi lét auðvitað ekki bjóða sér innrásina, heldur sendi herskip á vettvang og hrakti tíu þúsund manna her Argentínu burt frá eyjunum. Galtíeri og herforingjarnir í kringum hann misstu andlitið og hrökkluðust skömmu síðar frá völdum, og lýðræði komst á aftur í Argentínu árið eftir, 1983. Tímann, sem það tók að koma herforingjunum frá völdum, notuðu þeir meðal annars til að eyða gögnum um hreinsanirnar, pyndingarnar og fjöldamorðin, sem þeir höfðu skipulagt. Galtíeri var síðar náðaður ásamt mörgum öðrum herforingjum til að slá striki yfir fortíðina; það var umdeild ákvörðun. Argentína rétti smám saman aftur úr kútnum. Þessi saga rifjast upp nú, þegar ríkisstjórn Íslands hefur fyrirvaralaust lýst yfir stríði eða svo gott sem með því að hefja hvalveiðar í óþökk margra annarra þjóða og kalla þannig yfir Íslendinga hörð mótmæli utan úr heimi, jafnvel hótanir um refsingar og átök á miðunum. Við megum samt ekki láta hvalveiðar og fréttir af mótmælum gegn þeim draga athyglina frá mikilvægari málum. Við þurfum að fá að vita, hverjir hleruðu símana hjá hverjum án dóms og laga, hvað var gert við gömlu gögnin, áður en þau voru brennd 1976, og nýrri gögn, hverjir brutu lög og svo framvegis. Saga landsins verður að vera rétt skráð. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Skoðanir Þorvaldur Gylfason Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun Raforkunotkun gagnavera minnkað mikið Tinna Traustadóttir Skoðun Skammtatölvur: Framtíð tölvunarfræði og bylting í útreikningum Sigvaldi Einarsson Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Göngum fyrir friði Guttormur Þorsteinsson Skoðun
Hvers vegna heyja menn stríð? Hvers vegna finna menn ekki friðsamlegri leið til að skera úr ágreiningi? Þessar spurningar eru ævagamlar, og svörin eru margvísleg og misgóð eftir aðstæðum. Adam Smith færði frumleg rök að þeirri hugmynd í Auðlegð þjóðanna (1776), að almenningur hefði öðrum þræði yndi af styrjöldum fjarri heimahögum, hefði gaman af að fylgjast með frásögnum af bardögum í blöðunum líkt og margir á okkar dögum hafa gaman af stríðsmyndum og væri því fús að kosta styrjaldir með sköttum og skyldum, úr öruggri fjarlægð. Kóngar og keisarar kæmust því upp með að heyja fleiri og lengri stríð en ella. Fjölmiðlar um okkar daga leggja mikið rými undir stríð og selja auglýsingar eftir því, en styrjaldir vekja samt mismikla athygli. Íraksstríðið síðan 2003 hefur tekið mikið rúm í fjölmiðlum, en borgarastyrjöldin í Kongó síðustu ár, miklu mannskæðara stríð, var að mestu háð utan við ratsjár evrópskra og amerískra fjölmiðla. Þjóðarmorðið í Darfur í Súdan vekur ekki heldur mikla athygli eða umtal og heldur því áfram. Stundum fara stjórnarherrar í stríð til að dreifa athygli almennings frá óþægilegum innanlandsmálum. Ég segi stjórnarherrar, því að konur fara sjaldan í stríð. Nýlegt dæmi um stríðsrekstur af innanlandsástæðum er innrás Argentínuhers í Falklandseyjar vorið 1982 undir forustu Leópolds Galtíeri hershöfðingja. Þannig var, að herforingjar höfðu hrifsað til sín öll völd í Argentínu sex árum áður, 1976, lokað löggjafarþinginu, innleitt stranga ritskoðun, bannlýst stjórnmálaflokka og verkalýðsfélög og ráðizt í víðtækar hreinsanir meðal meintra andstæðinga. Hreinsanirnar eru kallaðar „Óhreina stríðið" þarna suður frá og kostuðu þrettán til fimmtán þúsund manns lífið, oft að lokinni fangavist og pyntingum. Mæður sumra þeirra þúsunda, sem hurfu sporlaust, gerðu kjarkaða uppreisn gegn herforingjunum og vöktu heimamenn og heimsbyggðina til vitundar um mannréttindabrotin og morðin, sem herforingjastjórnin hafði gert sig seka um. Barnlausir hershöfðingjar urðu síðar uppvísir að því að hafa rænt ungabörnum sumra fórnarlamba sinna og ættleitt þau; sérstök leyniskrifstofa sá um þennan verkþátt. Argentínsku mæðurnar áttu á brattann að sækja vegna ritskoðunar, útgöngubanns og almenns og lamandi ótta við leyniþjónustu herforingjastjórnarinnar. Efnahagslífið var bókstaflega í hers höndum, verðbólgan æddi áfram og mældist í þriggja stafa tölum, erlendar skuldir hrönnuðust upp, og innlendur iðnaður og aðrir útflutningsatvinnuvegir komust í alvarlegar kröggur. Af öllum þessum ástæðum varð herforingjastjórnin, sem hafði hrifsað til sín völd til að tryggja stöðugleika í efnahagslífinu, verr og verr þokkuð meðal almennings. Nú voru góð ráð dýr. Og þá datt herforingjunum það snjallræði í hug að ráðast á Falklandseyjar í apríl 1982, en þær liggja tæpa 500 kílómetra undan ströndum Argentínu og höfðu lengi tilheyrt Bretum og sært þjóðarstolt margra Argentínumanna. Þarna bjuggu um tvö þúsund manns með 700.000 rollur. Ríkisstjórn Margrétar Thatcher á Bretlandi lét auðvitað ekki bjóða sér innrásina, heldur sendi herskip á vettvang og hrakti tíu þúsund manna her Argentínu burt frá eyjunum. Galtíeri og herforingjarnir í kringum hann misstu andlitið og hrökkluðust skömmu síðar frá völdum, og lýðræði komst á aftur í Argentínu árið eftir, 1983. Tímann, sem það tók að koma herforingjunum frá völdum, notuðu þeir meðal annars til að eyða gögnum um hreinsanirnar, pyndingarnar og fjöldamorðin, sem þeir höfðu skipulagt. Galtíeri var síðar náðaður ásamt mörgum öðrum herforingjum til að slá striki yfir fortíðina; það var umdeild ákvörðun. Argentína rétti smám saman aftur úr kútnum. Þessi saga rifjast upp nú, þegar ríkisstjórn Íslands hefur fyrirvaralaust lýst yfir stríði eða svo gott sem með því að hefja hvalveiðar í óþökk margra annarra þjóða og kalla þannig yfir Íslendinga hörð mótmæli utan úr heimi, jafnvel hótanir um refsingar og átök á miðunum. Við megum samt ekki láta hvalveiðar og fréttir af mótmælum gegn þeim draga athyglina frá mikilvægari málum. Við þurfum að fá að vita, hverjir hleruðu símana hjá hverjum án dóms og laga, hvað var gert við gömlu gögnin, áður en þau voru brennd 1976, og nýrri gögn, hverjir brutu lög og svo framvegis. Saga landsins verður að vera rétt skráð.
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun