Innlent

Ekkert eftirlit með lögreglu

Ekkert eftirlit er með því innan lögreglunnar að farið sé eftir lögum um hleranir. Samkvæmt upplýsingum frá Ingimundi Einarssyni varalögreglustjóra er ekki hægt að taka saman tölur um hve oft hleranir samkvæmt dómsúrskurði hafi ekki leitt til ákæru.

Samkvæmt lögum ber lögreglunni að láta þann sem hefur verið hleraður, vita af því að hlerun hafi farið fram, þegar rannsókn máls er lokið. Áhöld eru hins vegar um það innan lögreglunnar, hvernig það er gert. Þá er ljóst að ekkert eftirlit er með því hvort það er yfirleitt gert, heldur treysta yfirmenn lögreglunnar því að undirmenn þeirra sjái um það.

Í skýrslu sem Björg Thorarensen lagaprófessor skrifaði fyrir dómsmálaráðuneytið fyrir sjö árum var einmitt bent á að þörf sé á skýrari reglum um skyldu til að tilkynna sakborningi að hlerun hafi átt sér stað.

Í ljós kom að það var engin regla eða farvegur sem slíkar tilkynningar höfðu hjá lögreglunni. Ekkert skipulag var á því hvernig það væri tilkynnt til þeirra sem höfðu verið hleraðir eða að þeirri tilkynningaskyldu væri sinnt, segir Björg.

Dómsmálaráðherra var spurður hvort brugðist hafi verið við ábendingum Bjargar og svaraði hann með því einu að benda á frumvarpsdrög sín til laga um meðferð sakamála sem hann lagði fram í september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×