Innlent

Seldu nær allan lax úr landi

Veitingamenn þurfa að flytja inn  lax
Veitingamenn þurfa að flytja inn lax

Helstu laxeldi landsins eru uppiskroppa með lax. Ástæðan er að aukin eftirspurn eftir eldislaxi á heimsvísu og hækkandi heimsmarkaðsverð hefur leitt til þess að nær allur íslenskur lax hefur verið seldur úr landi.

Að sögn Rúnars Gíslasonar, eiganda Furðufiska, er ástandið afar erfitt á markaðnum hérlendis. „Við vorum að taka um tonn á viku af laxi. Nú er aðeins einn framleiðandi sem á einhvern lax eftir og hann skammtar okkur um hundrað kíló á viku,“ segir Rúnar.

Að sögn Rúnars munaði á tímabili um helmingi á heimsmarkaðsverði og verðinu á markaðnum hér og því var nær allur laxinn seldur úr landi.

„Vegna laxaskortsins hérlendis kaupum við nú lax á heimsmarkaðs­verði frá Noregi en kostnaðurinn við að flytja hann hingað er gífurlegur,“ segir Rúnar. „Þessi flutningskostnaður leggst svo ofan á verðið til viðskiptavina okkar og því hefur salan dregist aðeins saman hjá okkur. Okkur stóð einfaldlega ekki íslenski laxinn til boða.“

Rúnar segir menn í matvælaiðnaðinum uggandi yfir ástandinu vegna jólanna. „Menn eru orðnir ansi hræddir fyrir jólavertíðina, fyrirtækin sem reykja og grafa lax fyrir hátíðirnar eru farnar að birgja sig upp af frosnum lax frá Chile til að anna eftirspurn í desembermánuði.“

Að sögn framkvæmdarstjóra laxeldisstöðvarinnar Rifós getur tekið rúmlega tvö ár að auka framleiðslu á eldislaxi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×