Í rannsókn sem gerð var á heilsu og lífskjörum skólabarna nú í vor kemur í ljós að 32,4 prósent unglinga í 10. bekk hafa haft samfarir. Þetta hlutfall er hæst á Suðurnesjum, Suðurlandi og Vestfjörðum, um 40 prósent en lægst um 28 prósent í nágrenni Reykjavíkur. Í Reykjavík er þetta hlutfall rétt um landsmeðaltal.
Þóroddur Bjarnason, einn skýrsluhöfunda og prófessor í félagsfræði við Háskólann á Akureyri, segir það vekja athygli hversu mikill munur sé á kynhegðun unglinga eftir landshlutum. Það geta verið margvíslegar ástæður fyrir þessu mynstri. Kynhegðun unglinga mótast að vissu marki af hefðum, venjum og viðhorfum sem ríkja í því samfélagi sem þau alast upp í.
Í rannsókninni kemur einnig fram að um 29 prósent stráka og 36 prósent stelpna í 10. bekk hafa haft samfarir en hlutfall stelpnanna er með því hæsta í Evrópu. Sóley Bender, dósent við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands segir þessar tölur um kynhegðun unglinga ekki koma sér á óvart en bætir við að í ljósi umfjöllunar um eftirlitslausa unglinga á útihátíðum undanfarið sé ekki úr vegi að geta þess að áfengisnotkun tengist áhættuþáttum varðandi kynlíf.