Sport

Rökkvi efstur inn í milliriðil

Tölt með tilþrifum. Landsmótssigurvegararnir í B-flokki frá árinu 2004, þeir Rökkvi frá Hárlaugsstöðum og Þorvaldur Árni, ætla sér að koma, sjá og sigra.
Tölt með tilþrifum. Landsmótssigurvegararnir í B-flokki frá árinu 2004, þeir Rökkvi frá Hárlaugsstöðum og Þorvaldur Árni, ætla sér að koma, sjá og sigra. mynd/Hestar, je

Forkeppni í B-flokki gæðinga lauk í gær á öðrum degi Landsmóts hestamanna í Skagafirði. Landsmótssigurvegarinn frá síðasta landsmóti sem haldið var á Hellu fyrir tveimur árum, Rökkvi frá Hárlaugsstöðum, sýndi kunnuglega takta og fer efstur inn í milliriðil sem riðinn verður á föstudag með einkunnina 8,76. Forkeppni í barnaflokki er einnig lokið, mjótt er á munum á efstu hrossunum enda börnin vel ríðandi. Efst inn í milliriðli eru Ragnheiður Hallgrímsdóttir og Svalur frá Álftárósi.

Yfirlitssýningum hryssna er lokið á mótinu en yfirlitssýning stóðhesta hefst í dag. Dögg frá Breiðholti vakti verðskuldaða athygli en Jón Páll Sveinsson reið henni í einkunnina 8,56 í flokki fimm vetra hryssna.

Á fjórða þúsund gestir eru nú komnir á Landsmót, veðrið hefur verið nokkuð milt og gott það sem af er þó sólin hafi ekki látið sjá sig. Nokkrir dropar hafa fallið en að sögn þeirra sem staddir eru á mótssvæðinu hafa veðurguðirnir tímasett rigningardembur á sama tíma og kaffihlé þegar flestir eru í veitingatjöldunum. Spáð er svipuðu veðri næstu daga, að mestu þurrt en þó von á einhverjum skúrum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×