Innlent

Taka að sér verkefnastjórn vegna flugvallarins í Kabúl

Frá Kabúl
Frá Kabúl MYND/AP

Íslenska friðargæslan mun taka að sér verkefnisstjórn við uppbyggingu flugvallarins í Kabúl í Afganistan, að ósk þarlendra stjórnvalda.

Í fréttum okkar í gær, sögðum við frá því að Íslendingar væru að fara að taka við víðtækara hlutverki við uppbyggingu flugavalla í útlöndum, en áður hefur verið gert í Kosovo. Þetta höfðum við eftir traustum heimildum. Við vinnslu fréttarinnar var byggt á því sem íslensk stjórnvöld hafa verið að gera á Pristínaflugvelli og dregnar af því ályktanir sem ekki reyndust nákvæmar. Til dæmis var það ekki NATO sem óskaði eftir verkstjórn Íslendinga í Kabúl, heldur stjórnvöld í Afganistan og framkvæmdin verður í höndum Friðargæslunnar en ekki Flugmálastjórnar. Hins vegar er ekki ósennilegt að Flugmálastjórn muni veita Friðargæslunni faglega ráðgjöf, enda ljóst að mjög víðtækt og sértækt uppbyggingarstarf er fyrir höndum.

Geir H. Haarde utanríkisráðherra tilkynnti ekki sérstaklega um þetta verkefni á utanríkisráðherrafundi NATO eins og fréttastofan taldi að hann myndi gera í dag. Hann hefur hins vegar staðfest að Friðargæslan muni taka að sér verkstjórn við uppbyggingu flugvallarins sem miðar að þvi að hann uppfylli kröfur Alþjóðaflugmálastofnunarinnar og fari að því loknu undir stjórn heimamanna. Hópur sérfræðinga frá Flugmálastjórn gerði frumathugun á umfangi verksins síðast liðið vor og er ljóst að kostnaður Afgana við uppbygginguna mun vera talsverður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×