Innlent

Ribbaldakapitalismi á matvörumarkaði?

Ásta Möller, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að hér á landi ríki einhvers konar ribbaldakapitalismi eins og í Rússlandi á frumskeiði markaðsvæðingar. Þetta sagði hún í ljósi þess að hér ríkti einokun á matvörumarkaði þar sem Baugur hefði hér rúmlega 60 prósenta markaðshlutdeild. Spurði hún viðskiptaráðherra um það hvernig bregðast skyldi við.

Í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag benti Ásta Möller á að mikil umræða fari nú fram í Bretlandi um aukna hlutdeild matvörukeðjunnar Tesco á breskum markaði. Markaðslutdeild Tesco væri nú yfir 30 prósentum. Hefðu Bretar af þessu áhyggjur. Ásta bar ástandið saman við ástandið á Íslandi þar sem Baugur hefði ríflega sextíu prósenta markaðshluteild á matvörumarkaði og gnæfði yfir önnur fyrirtæki.

Benti Ásta á að einokun risa á markaði gæti leitt til þess að smærri fyrirtæki færu á hausinn og þar með minnkandi samkeppni sem á endanum skilaði sér í hærra verði til neytenda.

Valgerður Sverrisdóttir, viðskiptaráðherra, svaraði því til að ekki væri ólöglegt að hafa ráðandi stöðu á markaði. Það væri hins vegar ólöglegt væri sú staða misnotuð. Sagði ráðherrann jafnframt að hann myndi ekki aðhafast í málinu því það væri hlutverk sjálfstæðrar stofnunar: Samkeppniseftirlitsins. Treysti hún því fullkomlega til að aðhafast í þessu máli teldi það ástæðu til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×