Innlent

Ekkert samráð við íbúa eins og samþykkt var

MYND/Vísir

Íbúasamtök Laugardals skora á alþingismenn að hafna frumvarpi um ráðstöfun á andvirði Landssímans, þar sem í því felist að við lagningu Sundabrautar verði farin svokölluð innri leið. Samtökin segja þá leið brjóta gegn umhverfismati og úrskurði umhverfisráðherra.

Frumvarpið um ráðstöfun á andvirði Landsímans verður líklega lagt fram til atkvæðagreiðslu á Alþingi í þessari viku. Í frumvarpinu er meðal annars það skilyrði að við lagningu Sundabrautar verði farin svokölluð innri leið, sem einnig hefur verið nefnd eyjaleið.

Gauti Kristmannsson hjá Íbúasamtökum Laugardals segir frumvarpið brjóta bæði gegn umhverfismati og úrskurði umhverfisráðherra um framkvæmdina. Þá segir hann að samþykkt borgarstjórnar um samráð við íbúa nálægra hverfa vera virt að vettugi. Það sé nefnilega ekkert „samráð" þegar búið sé að ákveða eitthvað.

Íbúasamtökin vilja að aðrar leiðir verði skoðaðar, ekki síst gangnaleiðin sem var uppi á borðum en Gauta finnst hafa verið sópuð birt allt of fljótt. Aðspurður hvort samtökin muni grípa til einhverra aðgerða ef frumvarpið verði samþykkt á þinginu í vikunni segir hann ekkert ákveðið í þeim efnum en efast um að íbúar Laugardals og Grafarvogs muni láta valta 50 þúsund bíla hraðbraut inn í hverfin sín mótmælalaust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×