Innlent

Skora á þingmenn að hafna frumvarpinu

MYND/Vísir

Íbúasamtök Laugardals skora á alþingismenn að hafna frumvarpi um ráðstöfun á andvirði Landssímans, þar sem skilyrt er í athugasemdum frumvarpsins að við lagningu Sundabrautar verði farin svokölluð innri leið. Í áskorun samtakanna segir að samkvæmt umhverfismati og úrskurði umhverfisráðherra skuli gera ráð fyrir víðtæku samráði við hagsmunaðila beggja vegna Elliðavogs. Samráð" um fyrirframgefna lausn séu aftur á móti engin samráð. Þannig telja Íbúasamtökin lagafrumvarpið í óbreyttri mynd brjóta bæði gegn umhverfismatinu og úrskurði ráðherra.

Í áskoruninni segir orðrétt:

 

Hæstvirtir þingmenn Reykjavíkur.

Vegna frétta um að til standi að samþykkja frumvarp til ráðstöfunar á andvirði Landssímans, þar sem skilyrt er í athugasemdum að við lagningu Sundabrautar verði farin svokölluð innri leið, skora Íbúasamtök Laugardals á þingmenn Reykvíkinga og alþingismenn alla að hafna frumvarpinu svo óbreyttu.

Samkvæmt umhverfismati og ennfremur samkvæmt úrskurði umhverfisráðherra skal gera ráð fyrir víðtæku samráði við hagsmunaðila beggja vegna Elliðavogs. Þannig telja Íbúasamtökin lagafrumvarpið í óbreyttri mynd brjóta gegn umhverfismatinu sem og úrskurði ráðherra.

Íbúasamtökin telja framkvæmdina sjálfa í þeirri mynd sem kynnt hefur verið beinlínis skapa heilbrigðisvandamál fyrir íbúa viðkomandi hverfa og sem slíka vinna gegn 1. grein frumvarpsins er kveður á um að markmið laganna sé að mæla fyrir um ráðstöfun söluandvirðisins til að styrkja innviði íslensks þjóðfélags meðal annars til framkvæmda sem nýtast munu á sviði samgöngu- og heilbrigðismála.

Um er að ræða eitthvert stærsta hagsmunamál tugþúsunda borgarbúa beggja vegna Elliðavogs og mun framkvæmdin hafa gríðarleg áhrif á umhverfi þeirra og lífsgæði öll. Umhverfisáhrif framkvæmdarinnar tefla heilbrigði og öryggi íbúa viðkomandi hverfa í tvísýnu. Í bókun borgarstjórnar, sem samþykkt var samhljóða, var samráði lofað við íbúa nærlægra hverfa.

Samráð um fyrirfram gefna lausn eru engin samráð og slík skilyrði munu hvorki leiða til farsællar né friðsamlegrar niðurstöðu í svo ríku hagsmunamáli.

Virðingarfyllst,

Íbúasamtök Laugardals




Fleiri fréttir

Sjá meira


×