Innlent

Byggðastofnun lánar út á ný

Byggðastofnun á að hefja aftur lánastarfsemi samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar, þrátt fyrir að eiginfjárstaða stofnunarinnar sé verri en lög gera ráð fyrir.

Þetta var ákveðið í kjölfar þess að starfshópur um fjárhagsvanda og framtíð Byggðastofnunar skilaði greinargerð sinni. Skoðað verður á næstunni hvort stofnunin eigi að hætta alfarið lánveitingum í samstarfi við banka og sparisjóði sem láni þá gegn ríkisábyrgðum.

Þá verður unnið að því að sameina alla þá atvinnuþróunarstarfsemi sem fellur undir ráðuneytið. Þá er markmiðið að fækka ekki störfum á Sauðárkróki og efla atvinnuþróunarstarfsemi á Ísafirði, Egilsstöðum og Akureyri. Ráðherra telur ekki mikla áhættu samfara því að lánastarfsemi haldi áfram þótt fjárhagur stofnunarinnar sé í rúst.

Anna Kristín Gunnarsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir þetta afleitt fordæmi og segir enn ekki liggja fyrir hversu mikið stofnuninni verði komið til hjálpar og hvernig eigi að styrkja byggðamálin yfirhöfuð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×