Innlent

Treysta Stefáni Jóni betur

MYND/Pjetur

Sextíu og sjö prósent þeirra borgarbúa sem taka afstöðu treysta Stefáni Jóni Hafstein betur en Steinunni Valdísi Óskarsdóttur sem næsta borgarstjóra. Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar Frjálsrar verslunar. Þá fengi Sjálfstæðisflokkurinn hreinan meirihluta í borgarstjórn ef kosið yrði nú.

Könnun Frjálsrar verslunar var gerð í vikunni fyrir vefsíðuna Heimur.is en niðurstöðurnar voru birtar í gær. Úrtakið í könnuninni var rúmlega 560 manns. Spurt var: Hvoru treystir þú betur sem borgarstjóra, Stefáni Jóni Hafstein eða Steinunni Valdísi Óskarsdóttur?. Um 27% vildu hvorugt, 16% voru óviss og 4% neituðu að svara. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 67% treysta Stefáni Jóni betur en um 33% Steinunni Valdísi. Meðal þeirra sem styðja Samfylkinguna var Stefán með um tvo þriðju hluta fylgisins.

Innan þess hóps sjálfstæðismanna sem tók afstöðu til frambjóðendanna tveggja var traust til Stefáns einnig mun meira, eða um 67%. Mjórra var á mununm hjá Vinstri grænum þar sem naumur meirihluti lýsti meira trausti á Stefáni Jóni en meirihluti þeirra fáu framsóknarmanna sem lentu í úrtakinu treysti Steinunni Valdísi betur

Í könnun Frjálsrar verslunar var einnig spurt hvaða flokk fólk hygðist kjósa í borgarstjórnarkosningunum næsta vor. Af þeim sem tóku afstöðu nefndu 53% Sjáfstæðisflokkinn, tæp 31% Samfylkinguna og rúm 10% Vinstri græna. Aðrir flokkar kæmu ekki að manni.

Margir aðspurðra sögðust ekki hafa gert upp hug sinn, eða 26% af þeim 564 sem spurðir voru í könnuninni. Sex prósent vildu ekki svara og um fjögur prósent kváðust ekki ætla að kjósa eða skila auðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×