Innlent

Hlutverk sveitarfélaga að bæta kjör leikskólakennara

Fjögur hundruð lærðir leikskólakennarar hafa valið sér annan starfsvettvang vegna lágra launa í faginu. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra segir að það sé alfarið hlutverk sveitarfélaganna að bæta úr því.

Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, vakti máls á vanda leikskólanna vegna manneklu í utandagskrárumræðu á Alþingi í dag. Í máli hennar kom meðal annars fram að eitt hundrað umsóknum um leikskólakennaranám hefði verið synjað í fyrra. Það væri enginn skortur á fólki sem vildi fara í þetta nám en launin væru alltof lág til þess að það héldist í starfinu.

Fjöldi annarra þingmanna kvaddi sér hljóðs í þessum umræðum og voru allir sammála um að lág laun væru rót vandans hjá leikskólunum. Jafnframt var lýst furðu á því að synjað hefði verið umsóknum um leikskólakennaranám.

Þorgerður Katrín sagði að enginn skortur væri á menntuðum leikskólakennurum og nóg yrði útskrifað af þeim á næstu árum. Hún var sammála því að lág laun væru helsti vandinn, en það væri verkefni sveitarfélaganna að ráða fram úr því, ekki ríksins. Ríkisvaldið væri að standa sig hvað varði faglegu hliðina.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×