Innlent

Umhverfisráðherra setur skilyrði vegna framkvæmdanna

Ein tillagnanna um lagningu Sundabrautar sem inniheldur hábrú.
Ein tillagnanna um lagningu Sundabrautar sem inniheldur hábrú.

Umhverfisráðherra hefur staðfest úrskurð Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum fyrsta áfanga Sundabrautar og landfyllingar við Gufunes. Hann setur þó skilyrði vegna framkvæmdanna um samráð við íbúa Hamrahverfis og við hafnaryfirvöld og hagsmunaaðila í Sundahöfn.

Í úrskurði sínum féllst Skipulagsstofnun á lagningu fyrsta áfanga Sundabrautar, sem liggur frá Sæbraut, yfir Kleppsvík, að Hallsvegi og Strandvegi, að settum tilteknum skilyrðum. Í matsskýrslu um framkvæmdina eru lagðir fram þrír kostir. Skipulagsstofnun fellst á þá alla að frátöldu því að hafnað var þeirri útfærslu á einni tillögunni að leggja Sundabraut á landfyllingum vestur fyrir Gufuneshöfða.

Umhverfisráðherra bárust þrjár kærur vegna úrskurðar Skipulagsstofnunar. Í úrskurði ráðherra segir að áhrif Sundabrautar á umhverfið séu ekki umtalsverð í skilningi laga um mat á umhverfisáhrifum. Hinn kærði úrskurður er því staðfestur að viðbættum tveimur skilyrðum: Annars vegar að framkvæmdaraðilar hafi samráð við fulltrúa íbúa Hamrahverfis um hönnun og útfærslu hljóðvarna, og leitast verði við að haga hljóðvörnum með þeim hætti að óæskileg umhverfisáhrif verði sem minnst. Hins vegar skuli framkvæmdaraðilar hafa samráð við hafnaryfirvöld og hagsmunaaðila í Sundahöfn við hönnun og nánari útfærslu þeirra umferðarmannvirkja sem kynnt eru í matsskýrslu og tengja hafnarsvæðið við Sæbraut og Sundabraut.

Þá var það niðurstaða ráðherra að fyrirhugaðar landfyllingar við Gufunes myndu ekki hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, en ein kæra barst vegna þeirrar framkvæmdar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×