Skríll og ekki skríll 8. nóvember 2005 23:41 Það er mikið deilt um notkun Nicolas Sarkozy, innanríkisráðherra Frakklands, á orðinu racaille. Þetta litla orð á að hafa hleypt öllu í bál og brand í Frakklandi. Annað orð svipaðrar merkingar er canaille. Sænski rithöfundurinn Franz G. Bengtsson, sem var óvenju fróður um margt, skrifaði um miðja síðustu öld ritgerð þar sem hann segir söguna af M. d´Avejan nokkrum, kapteini við lífvörð Frakkakonungs, sem var gerður út af örkinni til að kveða niður uppþot sem enn einu sinni brutust út í París vegna hækkaðs verðs á brauði. D´Avejan var kominn á vettvang og hafði upp á vasann skipanir um að skjóta á skrílinn – tirer sur la canaille. Hann fyrirskipaði mönnum sínum að munda byssurnar, klifraði upp á pall með klukku í hendi, tók af sér hattinn og hélt svohljóðandi ræðu: "Herrar mínir og frúr, ég hef fengið skipanir um að skjóta á skrílinn. Séu í þessum hópi einhverjir sem ekki eru skríll, væri ég þakklátur ef þeir væru svo vingjarnlegir að hverfa þegar í stað á braut, svo að skothríðin á mannsöfnuðinn geti hafist innan tveggja mínútna." Bengtsson endar söguna með því að mannfjöldinn hafi dreift sér með hlátrasköllum, en d´Avejan og herdeild hans snúið aftur til búða sinna. --- --- --- Gérard Lemarquis var í þætti hjá mér á sunnudaginn, frumlegur í hugsun að vanda. Hann sneri vangaveltunum um aðlögunarvanda innflytjenda í Frakklandi á haus; sagði að óeirðirnar undanfarna daga væru einmitt dæmi um að þeir hefðu aðlagast vel. Svona hefðu Frakkar alltaf hegðað sér – byltingar, uppþot og læti hefðu alltaf verið góð og gild aðferð þar í landi. --- --- --- Sarkozy hefur verið mikið gagnrýndur; margir hafa krafist þess að hann segi af sér. Þeir eru þó til sem hafa komið honum til varnar. William Dalrymple skrifaði til dæmis grein í Wall Street Journal og sagði að Sarkozy væri einn af fáum stjórnmálamönnum sem hefði ámálgað aðra lausn á vanda ungra innflytjenda en að byggja fleiri félagsmiðstöðvar sem bæru nöfn franskra þjóðskálda. Sarkozy, sem er óvenju frjálshyggjusinnaður af frönskum stjórnmálamanni að vera, vill veikja vald verkalýðsfélaga og telur að þannig opnist fleiri atvinnutækifæri fyrir innflytjendur. Á sama tíma – og það er kannski nokkuð mótsagnakennt – hefur hann verið hlynntur jákvæðri mismunun á vinnumarkaðnum og í menntakerfinu, innflytjendum og afkomendum þeirra til hagsbóta. Hann hefur einnig tekið undir hugmyndir um að til verði "franskt íslam"; það yrði þá nokkuð önnur leið en aðlögunin – integration – sem hefur verið ein áhrifamesta kennisetning í frönskum stjórnmálum. De Villepin, forsætisráðherra og keppinautur Sarkozys, hefur sagt að þessar tillögur séu "ófranskar", enda brjóti þær bága við hugmyndir um aðskilnað veraldlegs og andlegs valds sem franska lýðveldið byggi á. En hvað á að gera þegar eru komnir fimm milljón múslimar inn í landið? Er hugsanlega betra að þeir lúti andlegu valdi sem er komið frá "frönsku islam", en frá herskáum íslamistum annars staðar í heiminum? --- --- --- Á sama tíma hefur Sarkozy viljað beita lögreglunni af hörku gegn glæpagengjum; nokkuð í anda zero tolerance stefnunnar sem reyndist vel í New York á tíma Rudys Giuliani. Sarkozy er smávaxinn maður, næstum óþægilega metnaðargjarn, sífellt með tvírætt bros á vör, en að sumu leyti virðist hann hafa fleiri svör og meira sjálfstraust til að takast af alvöru á við vandann en skáldmennið de Villepin. Síðustu dagana hefur til dæmis orðið vart við talsverðan stuðning við Sarkozy á svæðunum þar sem verstu óeirðirnar hafa geisað. Íbúarnir þar eru eru eins og í gíslingu óeirðaseggjanna; nánst lokaðir inni í hverfunum. Á fyrstu dögum óeirðanna skemmtu Villepin og Jacques Chirac sér yfir vandræðum Sarkozys. Chirac hefur reyndar nánast verið horfinn svo vikum skiptir; var eins og maður sem kemur af fjöllum þegar hann loks tjáði sig um óeirðirnar fyrir nokkrum dögum – þótti jafnvel minna á hinn lánlausa Loðvík 16da þegar allt var að hrynja í kringum hann. Chirac er að verða eins og skrípamynd af sjálfum sér, meðan Sarkozy og Villepin takast á um hvor verði arftakinn í Elysée-höll. --- --- --- Ég skrifaði um það í pistli um daginn að fólki hætti til að vera eilíflega að leita að afsökunum fyrir ofbeldismenn – sem þeim dytti kannski ekki einu sinni í hug sjálfum. Að mörgu leyti hefur Frakkland komið þokkalega fram við innflytjendur; það er að minnsta kosti mjög einfölduð mynd að segja að annars vegar séu þrautkúguð fórnarlömb misréttis sem nánast neyðast til að kveikja í bílum og leikskólum og hins vegar ríkið sem kúgar þá á allan hátt. Félagsfræðingurinn Marco Diani skrifar í Le Monde að gettóin kringum París séu ekki bara staðir þar sem hinir voldugu ákveða að geyma hina kúguðu, heldur sé það líka vilji margra í þessum samfélögum að skapa svæði þar sem aðrir þora ekki að fara um, þar sem ríkir skipulagður fjandskapur sem útilokar ekki síst þá sem beita honum. Hettupeysumenn með ógnandi viðmót eiga ekki alltaf auðvelt með að falla inn í samfélagið. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Pistlar Silfur Egils Skoðanir Mest lesið Kæra unga móðir Jóna Þórey Pétursdóttir Skoðun Er píparinn þinn skattsvikari? Kristinn Karl Brynjarsson Skoðun Kosningar og ,ehf gatið‘ Róbert Farestveit Skoðun Verði þitt val, svo á jörðu sem á himni Halldóra Lillý Jóhannsdóttir Skoðun Grípum tækifærin og sköpum bjartari framtíð Ísak Leon Júlíusson Skoðun Rekin út fyrir að vera kennari Álfhildur Leifsdóttir Skoðun Frelsi til að búa þar sem þú vilt Sæunn Gísladóttir Skoðun Fólk eða fífl? Anna Gunndís Guðmundsdóttir Skoðun Halldór 9.11.2024 Halldór Það sem má alls ekki tala um... Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun
Það er mikið deilt um notkun Nicolas Sarkozy, innanríkisráðherra Frakklands, á orðinu racaille. Þetta litla orð á að hafa hleypt öllu í bál og brand í Frakklandi. Annað orð svipaðrar merkingar er canaille. Sænski rithöfundurinn Franz G. Bengtsson, sem var óvenju fróður um margt, skrifaði um miðja síðustu öld ritgerð þar sem hann segir söguna af M. d´Avejan nokkrum, kapteini við lífvörð Frakkakonungs, sem var gerður út af örkinni til að kveða niður uppþot sem enn einu sinni brutust út í París vegna hækkaðs verðs á brauði. D´Avejan var kominn á vettvang og hafði upp á vasann skipanir um að skjóta á skrílinn – tirer sur la canaille. Hann fyrirskipaði mönnum sínum að munda byssurnar, klifraði upp á pall með klukku í hendi, tók af sér hattinn og hélt svohljóðandi ræðu: "Herrar mínir og frúr, ég hef fengið skipanir um að skjóta á skrílinn. Séu í þessum hópi einhverjir sem ekki eru skríll, væri ég þakklátur ef þeir væru svo vingjarnlegir að hverfa þegar í stað á braut, svo að skothríðin á mannsöfnuðinn geti hafist innan tveggja mínútna." Bengtsson endar söguna með því að mannfjöldinn hafi dreift sér með hlátrasköllum, en d´Avejan og herdeild hans snúið aftur til búða sinna. --- --- --- Gérard Lemarquis var í þætti hjá mér á sunnudaginn, frumlegur í hugsun að vanda. Hann sneri vangaveltunum um aðlögunarvanda innflytjenda í Frakklandi á haus; sagði að óeirðirnar undanfarna daga væru einmitt dæmi um að þeir hefðu aðlagast vel. Svona hefðu Frakkar alltaf hegðað sér – byltingar, uppþot og læti hefðu alltaf verið góð og gild aðferð þar í landi. --- --- --- Sarkozy hefur verið mikið gagnrýndur; margir hafa krafist þess að hann segi af sér. Þeir eru þó til sem hafa komið honum til varnar. William Dalrymple skrifaði til dæmis grein í Wall Street Journal og sagði að Sarkozy væri einn af fáum stjórnmálamönnum sem hefði ámálgað aðra lausn á vanda ungra innflytjenda en að byggja fleiri félagsmiðstöðvar sem bæru nöfn franskra þjóðskálda. Sarkozy, sem er óvenju frjálshyggjusinnaður af frönskum stjórnmálamanni að vera, vill veikja vald verkalýðsfélaga og telur að þannig opnist fleiri atvinnutækifæri fyrir innflytjendur. Á sama tíma – og það er kannski nokkuð mótsagnakennt – hefur hann verið hlynntur jákvæðri mismunun á vinnumarkaðnum og í menntakerfinu, innflytjendum og afkomendum þeirra til hagsbóta. Hann hefur einnig tekið undir hugmyndir um að til verði "franskt íslam"; það yrði þá nokkuð önnur leið en aðlögunin – integration – sem hefur verið ein áhrifamesta kennisetning í frönskum stjórnmálum. De Villepin, forsætisráðherra og keppinautur Sarkozys, hefur sagt að þessar tillögur séu "ófranskar", enda brjóti þær bága við hugmyndir um aðskilnað veraldlegs og andlegs valds sem franska lýðveldið byggi á. En hvað á að gera þegar eru komnir fimm milljón múslimar inn í landið? Er hugsanlega betra að þeir lúti andlegu valdi sem er komið frá "frönsku islam", en frá herskáum íslamistum annars staðar í heiminum? --- --- --- Á sama tíma hefur Sarkozy viljað beita lögreglunni af hörku gegn glæpagengjum; nokkuð í anda zero tolerance stefnunnar sem reyndist vel í New York á tíma Rudys Giuliani. Sarkozy er smávaxinn maður, næstum óþægilega metnaðargjarn, sífellt með tvírætt bros á vör, en að sumu leyti virðist hann hafa fleiri svör og meira sjálfstraust til að takast af alvöru á við vandann en skáldmennið de Villepin. Síðustu dagana hefur til dæmis orðið vart við talsverðan stuðning við Sarkozy á svæðunum þar sem verstu óeirðirnar hafa geisað. Íbúarnir þar eru eru eins og í gíslingu óeirðaseggjanna; nánst lokaðir inni í hverfunum. Á fyrstu dögum óeirðanna skemmtu Villepin og Jacques Chirac sér yfir vandræðum Sarkozys. Chirac hefur reyndar nánast verið horfinn svo vikum skiptir; var eins og maður sem kemur af fjöllum þegar hann loks tjáði sig um óeirðirnar fyrir nokkrum dögum – þótti jafnvel minna á hinn lánlausa Loðvík 16da þegar allt var að hrynja í kringum hann. Chirac er að verða eins og skrípamynd af sjálfum sér, meðan Sarkozy og Villepin takast á um hvor verði arftakinn í Elysée-höll. --- --- --- Ég skrifaði um það í pistli um daginn að fólki hætti til að vera eilíflega að leita að afsökunum fyrir ofbeldismenn – sem þeim dytti kannski ekki einu sinni í hug sjálfum. Að mörgu leyti hefur Frakkland komið þokkalega fram við innflytjendur; það er að minnsta kosti mjög einfölduð mynd að segja að annars vegar séu þrautkúguð fórnarlömb misréttis sem nánast neyðast til að kveikja í bílum og leikskólum og hins vegar ríkið sem kúgar þá á allan hátt. Félagsfræðingurinn Marco Diani skrifar í Le Monde að gettóin kringum París séu ekki bara staðir þar sem hinir voldugu ákveða að geyma hina kúguðu, heldur sé það líka vilji margra í þessum samfélögum að skapa svæði þar sem aðrir þora ekki að fara um, þar sem ríkir skipulagður fjandskapur sem útilokar ekki síst þá sem beita honum. Hettupeysumenn með ógnandi viðmót eiga ekki alltaf auðvelt með að falla inn í samfélagið.