Innlent

Gengisfella stúdentsprófið til að spara

Ríkið ætlar að gengisfella stúdentsprófið til að spara krónur og aura, segja framhaldsskólakennarar sem ætla að leggja niður störf í eina kennslustund á morgun. Það eru kennarar við fimm framhaldskóla þar sem er bekkjakerfi - Verzlunarskólann, Kvennaskólann, Menntaskólann í Reykjavík, Menntaskólann á Akureyri og Menntaskólann við Sund - sem mótmæla.

Kolbrún Elfa Sigurðardóttir, talsmaður kennara, segir að styttingin þýði skerðing á námsefni, sem aftur þýði skerðingu á þekkingu og færni nemenda. Þar með sé stúdentsprófið gengisfellt. Kolbrún segir að þetta verði til þess að íslenskir stúdentar verði ekki samkeppnisfærir gagnvart erlendum stúdentum og kallar eftir upplýsingum um það hvernig háskólarnir hyggist bregðast við þessu. Hún segir að ef af þessu verði muni tveir árgangar útskrifast árið 2012, annar með fjögurra ára nám að baki en hinn þrjú ár, og spyr hvernig háskólarnir ætli sér að taka við þeim og hverjir menn telji að verði undir í samkeppni.

ÞorGerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra sagði í fréttum Stöðvar 2 í gær að sérstakt tillit eigi að taka til framhaldsskóla með bekkjakerfi. Kennarar eru hins vegar ekki bjartsýnir og segir Kolbrún að engin útfærsla á þessu hafi verið lögð fram. Þetta snúist að sjálfsögðu um krónur og aura, þótt menntamálaráðherra haldi því fram að svo sé ekki. „Einhvers staðar í skúmaskotum í menntamálaráðuneytinu er til reiknilíkan. Það er nákvæmlega búið að reikna það út hver hagnaður ríkisins verður af þessu, varðandi húsnæðismál, launakostnað til kennara, hversu ódýrari nemendur verða á öllum námsbrautum," segir Kolbrún.

Kennarar í skólunum í Reykjavík munu mótmæla við Alþingishúsið á morgun en kennararnir á Akureyri munu mótmæla þar. Kolbrún segir að tilgangurinn sé að koma af stað umræðu, fá foreldra til þess að kynna sér málið og háskólana til þess að taka afstöðu um hvernig þetta eigi að ganga fyrir sig.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×