Innlent

Telur nýju Hringbrautina mistök

Borgarfulltrúi R-listans telur nýju Hringbrautina vera mistök því hún taki allt of mikið landrými. Hann segir að grafa verði götuna niður eða byggja yfir hana þegar Vatnsmýrin verði byggð upp.

Árni Þór Sigurðsson, borgarfulltrúi R-listans, segist ekki hafa gert sér grein fyrir hversu mikið pláss nýja Hringbrautin myndi taka þegar hugmyndin var á teikniborðinu. Hann segir að þetta sé eftir á að hyggja eitt af því sem hann sjái einna mest eftir að hafa tekið þátt í að samþykkja. Þetta hafi verið umdeilt á sínum tíma en farið hafi verið rækilega í gegnum málið. Það byggist á gömlum samning milli ríkis og borgar sem borgin hafi kannski ekki átt mikla möguleika á að komast undan.

Árni segir einnig gatnamótin við Snorrabraut vera óheppileg á margan hátt. Þar séu gallar sem hann og fleiri hafi bent á þegar brautin var í hönnun, t.d. að þegar menn komi Snorrabrautina og ætli vestur þá þurfi þeir fyrst að fara í austur.

Þá vekur það líka athygli að þegar ekið er austur gömlu Hringbrautina eins langt og hægt er endar með því að ökuferðin liggur vestur í bæ. Árni hefur áhyggjur af því að Hringbrautin muni aðgreina Vatnsmýrina og miðborgina of mikið og telur að breytinga verði þörf samhliða uppbyggingu í Vatnsmýrinni. Hann segir að þá verði að gera ráðstafanir á hringbrautinni þannig að hún skeri ekki algerlega Vatnsmýrina frá miðborginni og Þingholtunum. Það sé hægt með því að taka hana niður í jörð eða byggja yfir hana.

Yfir nýju Hringbrautina liggur eflaust lengsta göngubrú landsins. Hjá gatnamálasviði Reykjavíkurborgar fengust þær upplýsingar valið hafi staðið á milli þess að hafa landfyllingu þar sem brúin lækkar úr fimm metra hæð eða að hafa hana í boga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×