Innlent

Í berhögg við íslensku stjórnarskrána

MYND/Teitur

Það er brot á alþjóðlegum samningum og gengur í berhögg við íslensku stjórnarskrána að heimila flug um íslenska lofthelgi með fanga, til yfirheyrslu í löndum þar sem þeir geta átt von á pyntingum. Þetta segir meðal annars í greinargerð með þingsályktun sem Össur Skarphéðinsson og níu aðrir Samfylkingarmenn ætla að leggja fyrir Alþingi.

Tilefnið er að í ljós er komið að þónokkrar flugvélar, sem grunur leikur á að bandaríska leyniþjónustan CIA noti til þess konar fangaflutninga, hafi farið um íslenska lofthelgi og nokkrar þeirra haft viðkomu hér á landi undanfarin misseri. Sú síðasta hafði viðkomu í Reykjavík fyrir tæpum mánuði. Í greinargerðinni segir að að sterkar líkur séu á því að CIA hafi notað Ísland sem viðkomustað við flutning fanga til landa þar sem vitað sé að pyntingum sé beitt við yfirheyrslur.

Fréttastofan hefur fyrir því heimildir að í a.m.k. einhverjum tilvikum, sem meintar fangavélar hafa haft viðkomu á Keflavíkurflugvelli, hafi þær verið vaktaðar af óeinkennisklæddum mönnum á ómerktum bílum sem hvorki virðast tilheyra lögreglunni né hernum. Eftir að þessir fangaflutningar komust í hámæli í Danmörku í byrjun vikunnar er komið í ljós að CIA vistar marga fanga í fangelsum í Austur-Evrópuríkjum þar sem mannúðleg meðferð á föngum er ekki í heiðri höfð, sem að sögn Wasington Post eru kallaðir svartir staðir. Þangað eru fluttir fangar úr öllum heimshornum, séu þeir grunaðir um tengsl við hryðjuverkahópa, að sögn blaðsins.

Nokkrar hinna grunuðu véla sem hafa farið um Keflavík hafa einmitt verið á leið til Austur-Evrópuu eða verið að koma þaðan. Bandaríska leyniþjónustan og talsmaður Bandaríkjastjórnar neituðu í gær að tjá sig um frétt blaðsins. Þá hefur danskur þingmaður gert þá kröfu til danskra stjórnvalda að þau kanni hvort svörtu staðirnir séu ef til vill í einhverju þeirra Austur-Evrópulanda sem nýverið gengu í Evrópusambandið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×