Erlent

Að minnsta kosti tuttugu látnir

Að minnsta kosti tuttugu manns létu lífið og fjölmargir særðust í Bagdad í dag þegar þrjár bílsprengjur voru sprengdar við hótel sem erlendir fréttamenn dveljast einkum á.

Bílsprengjurnar voru gríðarlega öflugar og sagði fréttamaður Sky fréttastofunnar að ein þeirra, sérstaklega, hafi verið sú öflugasta sem hann hefur orðið að vitni að, í Írak. Það mun hafa verið steyputrukkur, fullur af sprengiefni sem þá sprakk.

Bílsprengjurnar sprungu við Sheraton Hótelið og Palestinska hótelið, sem standa hlið við hlið í miðri Bagdad. Bandarískir hermenn standa að jafnaði vörð við þessi hótel. Talið er nokkuð víst að þrjár bílsprengjur hafi verið notaðar við þessi tilræði.

Fyrst komu tveir bílar á mikilli ferð og keyrðu á varnargirðingu sem er umhverfis hótelin. Þar sprungu þeir í loft upp og ruddu leiðina fyrir sementstrukkinn, sem ók í gegnum gatið sem myndaðist í girðingunni. Hann reyndi að komast á milli hótelanna en á þessum myndum má sjá að fyrri sprengingarnar tvær dugðu ekki til þess að ryðja honum braut alla leiðina. Hér er hann að hjakka á vegatálma, en springur skyndilega í loft upp. Telja má víst að ef hann hefði komist nær hótelunum hefði manntjónið orðið mun meira.

Hótelin standa við Firdus torgið, þar sem risastórri styttu af Saddam Hussein var steypt af stalli þegar innrásarherirnir náðu Bagdad á sitt vald árið tvöþúsund og þrjú.

Ekki er á þessari stundu vitað hverjir það voru sem létu lífið, en vitað er að að margir erlendir fréttamenn voru meðal þeirra sem særðust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×