Innlent

Gengu af fundi um varnarliðið

Viðræður Íslendinga og Bandaríkjamanna um framtíð varnarsamstarfsins eru í uppnámi eftir að samningamenn Íslands gengu af fundi í gær. Þeim líkaði ekki nýjustu tillögur Bandaríkjamanna.  Íslenskir embættismenn með Albert Jónsson, sendiherra í utanríkisráðuneytinu, í broddi fylkingar fóru til Washington eftir helgi og hófu í gær fundi með bandarískum kollegum. Ekki voru miklar væntingar fyrir fundinn og viðmælendur fréttastofunnar áttu fyrirfram ekki von á því að mikið þokaðist í samkomulagsátt, en deilt hefur verið um skiptingu kostnaðar. Þegar íslenska sendinefndin mætti til fundar í gær lagði bandaríska nefndin fram nýjar tillögur sem féllu vægast sagt í grýttan jarðveg. Albert Jónsson mun hafa stormað af fundi og sagt að þessar tillögur væru enginn grundvöllur frekari viðræðna. Opinberlega segja talsmenn bandarískra stjórnvalda að viðræðurnar hafi ekki farið fram með þeim hætti sem gert hafi verið ráð fyrir. Heimildarmenn fréttastofunnar innan bandaríska stjórnkerfisins segja framgang íslensku sendinefndarinnar ekki hjálplegan. Þrátt fyrir þetta áttu formenn sendinefndanna, Albert Jónsson og Robert Loftis, vara aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, að funda í einrúmi og stendur sá fundur enn. Að öllu óbreyttu á íslenska sendinefndin að koma aftur til Íslands á morgun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×