Sport

Ósáttir við ákvörðun Úlfars

Úlfar Hinriksson, annar tveggja þjálfara Íslands- og bikarmeistara Breiðabliks í knattspyrnu kvenna, er hættur að þjálfa liðið en Úlfar sendi frá sér yfirlýsingu þess efnis í gær. Úlfar var einnig yfirþjálfari yngri flokka hjá Breiðabliki en árangur þeirra var afar glæsilegur á Íslandsmótunum í sumar. Karl Brynjólfsson, formaður meistaraflokksráðs kvenna hjá Breiðabliki, var afar óánægður með þessa ákvörðun Úlfars. "Þessi ákvörðun hans kom mér algjörlega í opna skjöldu. Ég hef verið í sambandi við hann síðustu daga og ég bjóst alls ekki við því að þetta væri í gangi. Við höfum ekki rætt við neinn þjálfara og höfðum ekki hugsað okkur að gera það á næstunni. Úlfar hefur skilað frábæru starfi hjá Breiðabliki og þess vegna harma ég þessa ákvörðun hans mikið." Stutt er síðan Úlfar skrifaði undir nýjan samning við Breiðablik sem yfirþjálfari yngri flokka félagsins en svo virðist sem hann sé einnig búinn að gefa þá stöðu frá sér. Það þótti mörgum undarlegt að ekki hafi verið búið að ganga frá samningum við Úlfar Hinriksson þar sem árangur hans í sumar var afar glæsilegur, en hann hefur starfað sem þjálfari yngri flokka hjá Breiðabliki síðan árið 1995. "Meistaraflokksráð hefur einfaldlega ekki haft tíma til þess að ganga frá þessum málum. Við erum í þessu í sjálfboðavinnu og þess vegna er stundum erfitt að ganga frá samningum og leikmannamálum. En eins og ég segi kom þessi ákvörðun Úlfars mér gjörsamlega í opna skjöldu og ég harma hana mjög."Ekki náðist í Úlfar Hinriksson þegar Fréttablaðið reyndi að ná tali af honum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×