Innlent

Enn mótmælt við stífluna

Lögreglumenn frá Seyðisfirði og Reykjavík handsömuðu sjö mótmælendur sem komust inn á bannsvæði við Kárahnjúkastíflu í gær og settu þar upp borða í mótmælaskyni við framkvæmdirnar. Að sögn Óskars Bjartmars yfirlögregluþjóns á Seyðisfirði voru mótmælendurnir færðir til yfirheyrslu á Egilsstöðum síðdegis í gær. Hann segir þá úr hópi mótmælenda sem haldi til á tjaldstæði að Vaði í Skriðdal. Þar hafa um 40 manns haft næturstað undanfarnar tvær nætur. Vegfarendur og ferðamenn, sem lagt hafa leið sína upp á Fljótsdalsheiði og svæðið við Snæfell og Vesturöræfi um Verslunarmannahelgina, hafa sumir hverjir verið stöðvaðir af lögreglunni og spurðir um ferðir sínar og erindi inn á hálendið. Einn ferðamaður, sem Fréttablaðið ræddi við í gær, sagði að lögreglan hefði ekki gefið neinar skýringar á aðgerðunum. Óskar Bjartmars segir að Seyðisfjarðarlögreglan og lögreglumennirnir frá Reykjavík hafi sinnt eftirlitsstörfum í grennd við Kárahnjúkavirkjun um helgina og kannast við að bílar hafi verið stöðvaðir í því skyni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×