Innlent

Læstirðu dyrunum?

Læstirðu dyrunum? Lokaðirðu glugganum? Nú eru margir á leiðinni út úr bænum og aldrei er of varlega farið, hvort sem um ræðir akstur á þjóðvegunum eða hvernig er skilið við heimilið áður en lagt er í hann. Um Verslunarmannahelgina í fyrra, frá föstudagsmorgni til þriðjudagskvölds, voru 15 innbrot tilkynnt til lögreglunnar í Reykjavík. Það er mjög nálægt meðallagi, m.a.s. aðeins undir. Það er upp og ofan hvort þýfi finnist, jafnvel þótt mál upplýsist, því menn séu yfirleitt fljótir að koma því í verð.  Hörður segir mikilvægt að ganga þannig frá að ekki sé augljóst að húsið sé mannlaust, ekki hafa verðmæti á glámbekk og síðast en ekki síst loka: öllum hurðum og gluggum. Brotist var inn um eldhúsglugga hjá Sveini Guðmarssyni, blaðamanni á Fréttablaðinu, í síðustu viku á meðan hann var í vinnu og fartölvu hans stolið. Tölvan sem var glæný hafði að geyma þýðingu á bók sem hann var að vinna við og tapaðist því nokkur vinna við atburðinn. Hann var samt sem betur fer búinn að senda nokkra kafla frá sér. Sveinn gerir sér litlar vonir um að fá tölvuna aftur en það er alltaf auðvelt að vera vitur eftir á. Hann kveðst hafa lært sína lexíu og fer ekki út núna nema loka öllu kyrfilega.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×