Innlent

Lögreglan gerir allt sem hún getur

Fulltrúar lögreglu og slökkviliðs hafa komið því á framfæri við nokkra atvinnubílstjóra, sem ætla að trufla eða jafnvel stöðva umferð á aðalumferðaræðum á höfuðborgarsvæðinu í dag, að það teljist hættuástand ef neyðarakstur lögreglu-, slökkviliðs- og sjúkrabíla tefst af þeim sökum. Af slíkum aðgerðum hlytist líka margvíslegt óhagræði fyrir hinn almenna vegfaranda sem ekkert hefur til saka unnið og ekkert gert á hlut þeirra sem boðað hafa aðgerðir. Þessu til staðfestu vísar lögregla og slökkvilið í fjórar lagagreinar sem varða brot á hagsmunum almennings, brot sem hafa í för með sér almannahættu og í grein sem fjallar um aðgerðir í þágu almannafriðar. Þá segist Umferðarstofa vilja gera þá tilraun að höfða til skynsemi mótmælendanna og beina þeim tilmælum til þeirra að taka ekki þátt í aðgerðunum. Með því sé Umferðarstofa þó ekki að taka afstöðu til málefnisins en vilji benda á að margar aðrar leiðir séu færar til þess að hafa í frammi mótmæli, án þess að stofna lífi og limum saklausra borgara í hættu. Geir Jón Þórisson yfirlögregluþjónn sagði í samtali við fréttastofu að lögreglan myndi gera allt til þess að umferðin geti gengið snurðulaust fyrir sig, en fór ekki nánar út í hvað fælist í orðinu „allt“.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×