Innlent

Féll 150 metra í skriðum

Fertugur maður slasaðist þegar hann féll um það bil 150 metra niður skriðu um miðjan dag í gær við Hvalvatnsfjörð sem er á nesinu milli Skjálfanda og Eyjafjarðar. Maðurinn var á göngu í Bjarnarfjalli ásamt fleira fólki þegar slysið varð og tillkynnti ferðafélagi Neyðarlínunni um slysið. Björgunarsveitarmenn frá Húsavík ásamt lækni komu með björgunarbáti fyrst að manninum um klukkan hálf fjögur þar sem hann lá í flæðarmálinu og veittu þeir honum aðhlynningu. Flytja varð manninn til svæðis þar sem þyrla gæti nálgast og að því loknu var hann hífður upp í þyrlu Landhelgisgæslunnar sem kom á slysstað klukkan rúmlega fjögur og flutti manninn til Akureyrarflugvallar. Þaðan var síðan maðurinn fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur. Ekki fengust frekari fregnir af líðan mannsins á Landspítala-háskólasjúkrahúsi en að sögn manna frá Landsbjörgu var maðurinn talsvert lemstraður þegar komið var að honum. Um fjörutíu björgunarsveitarmenn frá Húsavík, Grenivík og Akureyri tóku þátt í björguninni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×