Innlent

Grunaður um að selja vændislista

Lögreglan í Kópavogi hefur yfirheyrt mann sem grunaður er um dreifingu lista með nöfnum vændiskvenna á netinu. Sextán ára stúlka hefur einnig verið yfirheyrð en grunur leikur á því að maðurinn hafi fengið afnot af reikningi hennar til þess að taka við greiðslu fyrir listana. Manninum var sleppt að loknum yfirheyrslum í fyrradag og ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvert framhald málsins verður að sögn Friðriks Smára Björgvinssonar, yfirlögregluþjóns í Kópavogi. "Verið er að skoða málið í ljósi framburða þessara tveggja vitna sem búið er að yfirheyra og verður ákvörðun um framhald málsins tekin í kjölfarið." Talið er að maðurinn hafi notfært sér tvo einkamálavefi til að koma listunum í dreifingu. Verið er að rannsaka vefina en Friðrik Smári segir ekkert hægt að staðfesta að svo stöddu um þeirra þátt. Maðurinn er grunaður um brot á hegningarlögum sem varða milligöngu vændis en brot á þeim geta varðað allt að fjögurra ára fangelsi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×