Innlent

Lést af völdum byssuskots í höfuð

Krufning leiddi í gær í ljós að Gísli Þorkelsson, sem myrtur var í Suður-Afríku fyrir rúmum fimm vikum síðan, lést af völdum byssuskots í höfuðið. Lík Gísla fannst 10. júlí falið í tunnu sem fyllt hafði verið með steypu þannig að aðeins sá í fætur þess. Andy Pieke, aðstoðaryfirlögregluþjónn og talsmaður lögregluyfirvalda í East Rand hluta Jóhannesarborgar í Suður-Afríku, segir að þrátt fyrir háa glæpatíðni hafi málið vakið töluverða athygli ytra. "Það er ekki algengt að hér finnist lík í steinsteypu í ruslatunnum," segir hann. "Núna taka við prófanir á erfðaefni og svo eiturefnafræðigreining, en hún sýnir fram á hvort í líkinu greinast lyf eða alkóhól," sagði Pieke, en gerði ekki ráð fyrir niðurstöðum fyrr en að nokkrum tíma liðnum. "Þær rannsóknir taka mjög langan tíma." Pieke var ekki bjartsýnn á að réttað yrði í flýti yfir Desireé Louse Oberholzer og Willie Theron sem sökuð eru um að hafa myrt Gísla. "Þau verða færð aftur fyrir dómara í ágúst og hafi rannsóknin gengið vel er mögulegt að fest yrði dagsetning fyrir réttarhöld. Sjálfum finnst mér samt ólíklegt að réttað verði í málinu fyrr en einhvern tímann á næsta ári."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×