Innlent

Mótmæltu seinagangi kerfisins

Átta flóttamenn frá fjölmörgum löndum mótmæltu á götum Reykjanesbæjar í dag. Þeir hafa dvalið á gistiheimili í bænum undanfarna mánuði og mótmæla seinagangi kerfisins; segja íslensk stjórnvöld ekki líta á sig sem mannverur. Í yfirlýsingu flóttamannanna kemur fram að þeir búi við slæman kost, hafi ekkert að gera, sofi bara og fái mat. Þeim finnist undarlegt að hægt sé að fljúga Bobby Fischer til landsins með íslenskt vegabréf eins og ekkert sé á meðan umsækjendur um pólitískt hæli húki mánuðum saman algerlega aðgerðalausir án þess að fá nokkra lausn sinna mála. Risah Kahn, einn þeirra, segir suma flóttamannanna hafa verið á gistiheimilinu í átta mánuði, aðra í fimm eða níu mánuði. Þeir hafi verið þar lengi og stjórnvöldum sé sama um þá. Þess vegna mótmæli þeir. Flóttamennirnir eru mjög ósáttir við íslensk stjórnvöld, en 24 flóttamenn dvelja nú á gistiheimilinu. Þeir vonast til að fá atvinnu- og dvalarleyfi á Íslandi. Kahn segir að nær öllum flóttamönnum sé vísað úr landi, það hafi hann séð þá níu mánuði sem hann hafi dvalið hér. Þeir segja að þeir hafi verið varaðir við því að fara í mótmælaaðgerðirnar. Þeir gætu átt það á hættu að verða sendir úr landi. Þeir segja enn fremur að innflytjendayfirvöld reyni bara að senda þá úr landi. Einn þeirra sem þannig hafi farið fyrir hafi verið veikur og slasaður. Yfirvöldum hafi ekki fundist það tiltökumál en hann hafi verið mikið meiddur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×