Innlent

Baráttumaður fyrir jafnrétti kynja

Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra vísar því á bug að hafa sagt að staða konunnar sé á bak við eldavélina. Hann segist vera baráttumaður fyrir jafnrétti kynjanna þótt ekki sé til sérstök jafnréttisáætlun í landbúnaðarráðuneytinu. Eins og fram kom í fréttum Stöðvar 2 í gær hvatti Berglind Rós Magnúsdóttir, fráfarandi jafnréttisfulltrúi Háskóla Íslands, Guðna Ágústsson til að taka sig á í jafnréttismálum og vísaði meðal annars til þess að landbúnaðarráðuneytið væri eina ráðuneytið sem ekki byggi yfir jafnréttisáætlun. Guðni segir sig þó vera framarlega í flokki jafnréttissinna. Frá því að hann hafi tekið við landbúnaðarráðuneytinu hafi átta af tíu háskólamenntuðum fulltrúum sem ráðnir hafi verið til starfa verið konur. Hlutur hans sé því allgóður í þessu efni. Guðni segir ráðuneytið hafa ráðið starfsmann sem jafnréttisfulltrúa þess og að það fari eftir stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum málum en hafi ekki gert sérstaka jafnréttisáætlun sökum þess hve lítið ráðuneytið er, en eins og fram kemur í jafnréttislögum eru fyrirtæki og stofnanir sem hafa að bera 25 starfsmenn eða fleiri hvött til þess að að gera jafnréttisáætlun. Guðni segir að ef landbúnaðarráðuneytið sé hengt upp sem einhver sökudólgur en sé kannski í fremstu röð í jafnréttismálum þá þyki honum það sjálfsagður hlutur. Guðni segir konur ekki nógu duglegar að sækja sjálfar í ákveðin störf. Konur í sveitum séu mjög hæfir foringjar og mikilir félagsmálamenn en láti ákveðinn vettvang eiga sig í félagsmálastarfinu og láti karlmönnum hann eftir. Hann sakni þeirra þar. Guðni segist vilja sjá fleiri konur í forystustörfum í bændasamtökum og að hann hafi aldrei sagt konuna eiga heima á bak við eldavélina. Þetta sé falleg saga sem einhver hafi búið til en þetta sé ekki líkt föður sem einungis eigi þrjár dætur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×