Innlent

Máttu ekki flytja til skólahald

Ákvörðun Skeiða- og Gnúpverjahrepps um að flytja allt skólahald Þjórsárskóla í Árnes hefur verið felld úr gildi vegna vanhæfis sveitarstjórnarmanna. Ákvörðunin var kærð vegna mögulegs vanhæfis þriggja sveitarstjórnarmanna og komst félagsmálaráðuneytið að þeirri niðurstöðu að tveir þeirra hafi verið vanhæfir. Oddviti hreppsnefndarinnar sem sér um skólabílaakstur þótti ekki vera vanhæfur þar sem skólaakstur kann að aukast óverulega vegna breytinganna. Hinir tveir þóttu hins vegar vanhæfir. Annar vegna þess að maki hans vinnur í mötuneyti skólans en hinn þar sem hann er sjálfur í 87 prósenta starfi við ræstingar við skólann. Við afgreiðslu málsins hjá ráðuneytinu þótti ekki hægt að líta fram hjá því að hreppsnefndarmönnunum tveimur hefði ljáðst að vekja athygli á vanhæfi sínu. Málið hefði því verið afgreitt án þess að hreppsnefndarmenn tækju afstöðu til þess hvort þeim væri heimilt að taka þátt í atkvæðagreiðslu um málið. Þótti ráðuneytinu þessi annmarki svo alvarlegur að ógilda bæri ákvörðunina og fjalla um málið að nýju að tilkvöddum varamönnum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×