Innlent

Fjárdráttur kærður til lögreglu

Lögreglu verður sent fjárdráttarmál starfsmanns Reykjavíkurborgar til rannsóknar komi í ljós við athugun að hann hafi dregið sér fé frá geðsjúkum. Maðurinn annaðist fjóra geðsjúka menn sem búa í vernduðu húsnæði á vegum borgarinnar. Grunur leikur á að hann hafi dregið sér umtalsvert fé í nokkrun tíma frá skjólstæðingum sínum úr samskotsjóði þeirra sem ætlaður var til matarkaupa. Starfsmanninum hefur verið vísað frá störfum á meðan málið er athugað hjá velferðarsviði og innri endurskoðun borgarinnar. En verður málið ekki sent í lögreglurannsókn? Lára Björnsdóttir, yfirmaður velferðarsviðs, segir að ef rannsókn leiði í ljós að rökstuddur grunur sé um að misfarið hafi verið með fé mannanna verði málinu vísað til lörgeglu, en það liggi ekki fyrir enn þá. Málið komst upp í síðustu viku þegar samstarfsmaður starfsmannsins gerði velferðarsviði Reykjavíkur viðvart um að hann teldi ekki allt vera með felldu. Lára segir starfsmenn ekki eiga að höndla með fjármuni heimilisfólksins því það bjóði upp á freistingar og voru settar um það reglur árið 2001. Samkvæmt þeim sé starfsmönnum heimaþjónustu og inni á heimilum fólks óheimilt að fara með fjármuni íbúa. Ef menn þurfi aðstoð við innkaup þá fari það alfarið fram í gegnum reikningsviðskipti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×