Innlent

Fá ekki greiðslur úr ríkissjóði

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í dag íslenska ríkið af kröfum bænda á bænum Hjallalandi í Sveinsstaðahreppi í Austur-Húnavatnssýslu, en þeir vildu að viðurkennt yrði með dómi að þeir ættu rétt á greiðslum úr ríkissjóði sem handhafar beingreiðslna sauðfjárbúsins á bænum. Þeir töldu sig eiga rétt á skaðabótagreiðslum úr ríkissjóði vegna breytinga á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á landbúnaðarafurðum sem tóku gildi árið 2000. Í niðurstöðu héraðsdóms segir að fyrir löggjafanum hafi vakað að styrkja ákveðnar byggðir með sérstöku framlagi en ekki einstaka bændur. Kemur fram að þótt fyrirkomulag á greiðslu framlagsins hafi í framkvæmd nokkra mismunun í för með sér á milli einstakra sauðfjárbænda verði að telja þá mismunun innan marka þess sem jafnræðisregla stjórnarskrárinnar heimili. Telur dómurinn að samkvæmt því beri að sýkna ríkið af kröfum stefnenda.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×