Innlent

Sameinast verði um samgöngubætur

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi sjálfstæðismanna í Reykjavík, segir að landsmenn eigi að sameinast um samgöngubætur í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Kjördæmapot komi í veg fyrir að ráðist sé í átak sem dragi verulega úr banaslysum. Kjartan segir að slysatíðnin á vegunum í kringum Reykjavík sé mjög há og að hans mati sé mjög mikilvægt að breikka þá, að hafa tvær akreinar í hvora átt og aðskilja þannig umferð úr gagnstæðum áttum. Kostnaður við tjón á Suðurlandsvegi vegna árekstra á árinu 2003 nam rúmum einum milljarði króna. Með hliðsjón af því telur Kjartan að vegabætur myndu borga sig á fáum árum og því eigi að ráðast beint í tvöföldun Suðurlandsvegar sem og Vesturlandsvegar að loknum úrbótum á Reykjanesbraut en það sé ekki á áætlun og þess vegna þyrftu höfuðborgarbúar að styðja það að áætluninni verði breytt og farið verði í verkefnin strax og lokið verði við framkvæmdir við Reykjanesbraut. Aðspurður hvaða verkefnum eigi að sleppa í staðinn segir Kjartan að til dæmis væri hægt að hverfa frá gangagerð úti á landi sem kosti marga milljarða. Með þeim útgjöldum sé ekki verið að fækka slysum heldur tengja saman fámenn byggðarlög. Kjartan er talsmaður þess að setja arðsemi og öryggi á oddinn. Mislæg gatnamót á höfuðborgarsvæðinu og 120 kílómetra kafli á þjóðvegum næst höfuðborginni séu brýnustu verkefnin. Hann sé fjölfarinn, þar mætist bílar á miklum hraða og árekstrar verði alvarlegir. Hann vitnar í tölur frá rannsóknarnefnd umferðarslysa og segir að fimmtungur banaslysa í umferðinni verði vegna áreksturs bíla sem mætast og að 70 prósent þeirra slysa verði á þjóðvegunum nálægt höfuðborgarsvæðinu.  Kjartan óttast ekki að skoðanir sínar spilli samstöðu höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar og bendir á að Suðurlandsvegur og Vesturlandsvegur séu ekki á höfuðborgarsvæðinu sjálfu en hann telji að allir landsmenn geti sameinast um það að vegafé renni fyrst og fremst til verkefna sem fækki umferðarslys.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×